Um þessar mundir ber mikið á aðilum sem kenna sig við skjaldborg heimilanna. Þeir boða t.d. skattfrjálsar niðurfellingar á skuldum einstaklinga og jafnvel lögaðila. Þegar betur er að gáð verður ekki betur séð en að þeir sem njóti mests skjóls í þessum tillögum séu sjálftöku- og óreiðumenn sem kenndir voru við útrásina. |
– Aðalsteinn Hákonarson, Tíund, nóvember 2009. |
L eikaraskapurinn í kringum fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna birtist með ýmsum hætti. Þingmenn eru til að mynda sagðir „upplýsa um fjárhagsleg tengsl“ sín. Til þess er sérstök „hagmunaskráning“ á vef Alþingis.
Í flestum tilvikum þýðir þetta að þeir upplýsa nákvæmlega ekkert um fjármál sín umfram það sem hver maður gat áður kynnt sér með öðrum hætti og varla það.
Í hagsmunaskráningu þingmanna er til að mynda ekkert um það hverjum þeir skulda fé.
Þetta er athyglivert nú þegar berast fréttir af því að ríkisstjórnin með félagsmálaráðherra í fararbroddi lagði fram frumvarp á Alþingi þar sem gert var ráð fyrir að niðurfelling skulda yrði ekki skattskyld.
Hvernig stendur á því að Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra leggur fram slíkt frumvarp?
F yrir réttu ári kom nokkur hópur fólks saman í Háskólabíói og varð mjög móðgaður þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi að þar væri þjóðin ekki endilega mætt. Í dag gerði annar hópur tilkall til þess að vera þjóðin á fundi, að þessu sinni í Laugardalshöll.
Í lok fundarins lýsti einn aðstandenda hans því yfir að „niðurstaða hans yrði færð þjóðinni að gjöf“. Það hlýtur að teljast nokkur eigingirni. En þegar haft er í huga að þjóðin fékk líka reikninginn fyrir fundahöldum þjóðarinnar fer líklega best á því.
Svo halda einhverjir að verið sé að spara í rekstri ríkisins.