Þ að rúma ár sem liðið er frá því viðskiptabankarnir fóru í þrot hefur þjóðmálaumræðan oftar en ekki verið jafn fjarri raunveruleikanum og sumar spár matsfyrirtækjanna. Stundum hefur það helgast af afsakanlegri vanþekkingu, stundum af vísvitandi tilraunum til að afvegaleiða athygli manna og stundum af löngun manna til þess að telja fólki trú um að annað hvort tilteknar hugmyndir eða tilteknir menn hljóti einhvern veginn að eiga sök á því hvernig fór. Í síðastnefnda tilganginum hafa menn gjarnan borið fyrir sig hrein ósannindi, hvort sem þau eru vísvitandi eða þá helberar meinlokur.
Maður sem klessukeyrði bílinn sinn, drukkinn eða ódrukkinn, staulaðist út úr brakinu og segði að þarna sæist gagnsleysi hins opinbera greinilega, því umferðarlögreglan hefði ekki verið á staðnum og svo hefðu menn lagt veg en ekki sett nein umferðarlög; engum dytti í hug að hlusta á slíkan mann. Og hvers vegna ekki?, má spyrja þó svarið sé augljóst. Það er fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Hann héldi fram tómri fjarstæðu þegar hann segði að ekki væru umferðarlög, því þau hafa verið sett, og þó umferðareftirlit sé meðal verkefna lögreglunnar þá verður ábyrgðin á akstrinum alltaf hjá hverjum og einum ökumanni. Þetta vita allir.
En þegar kemur að áföllum á fjármálamarkaði þá er eins og menn missi sjónar af því sem þeir sæju svo auðveldlega annars staðar. Skýrt dæmi er fullyrðingin sem svo oft hefur heyrst undanfarna mánuði, að ekki hafi verið settar reglur á fjármálamarkaði. Sú fullyrðing er jafn vitlaus og ef einhver héldi því fram að ekki væru til umferðarlög.
Það hefur verið sett ógrynni reglna um íslenskan fjármálamarkað. Þessar reglur, smásmyglislegar og yfirgipsmiklar í senn, voru í samræmi við það sem viðgekkst á vestrænum fjármálamörkuðum, ekki síst fyrir tilstilli Evrópusambandsins sem sumir vilja víst fela aukin ítök í íslenskri löggjöf. Og ríkið lét sér ekki nægja að setja allar þessar reglur, heldur kom það upp sérstakri stofnun, Fjármálaeftirlitinu, til þess að fylgjast með því að þær yrðu ekki brotnar, og voru fjárframlög til Fjármálaeftirlitsins aukin verulega ár frá ári.
En þó það sé fjarstæða að engar reglur hafi gilt um íslenskan fjármálamarkað, þá gætu menn auðvitað reynt að segja að ekki hafi gilt nógu góðar reglur. Að einhverjar tilteknar reglur hafi vantað eða að einhverjum væri ofaukið. En á þeim þrettán mánuðum sem liðnir eru frá bankaþrotinu hefur lítið farið fyrir slíkum ábendingum. Þeir sem í rúmt ár hafa æpt að engar reglur hafi gilt, hafa þeir nefnt eina einustu reglu sem hefði átt að setja, en var ekki sett? Og, ef slík regla er til, sem vel má vera því það er auðvelt að sjá hluti fyrir, eftir að þeir hafa gerst, var hún þá einhvern tíma lögð til, í tæka tíð?
Það eru ekki aðeins stjórnvöld sem geta lagt nýjar reglur til. Allir alþingismenn geta lagt fram lagafrumvörp. Hafði einhver stjórnarandstöðuþingmaður lagt einhverja nýja reglu til, sem hefði skipt máli síðasta haust? Eða fræðimennirnir, í háskólanum og annars staðar, sem allt sáu fyrir, um leið og það gerðist? Hverjir þeirra komu með skýra og rökstudda tillögu að reglusetningu sem ekki var hlustað á? Sama má segja um Icesave-reikningana: Var einhvers staðar fræðimaður, álitsgjafi eða annar spekingur sem varaði við því að erlendir innlánsreikningar viðskiptabankanna kynnu að lenda á íslenskum skattgreiðendum? Nú er það ekki svo að menn hafi ekki vitað af reikningunum, Icesave-reikningarnir voru hvorki meira né minna en valdir ein af þremur snjöllustu viðskiptum ársins 2007, ásamt kaupum Baugs í FL-Group og sölu búlgarska símans. Og í dómnefndinni sem þetta valdi voru margir af helstu spekingum íslenskrar þjóðmálaumræðu, meðal annars fólk eins og Ólafur Ísleifsson, Halla Tómasdóttir, Ágúst Einarsson, Vilhjálmur Egilsson, Þórður Friðjónsson, Edda Rós Karlsdóttir og Jón Þór Sturluson. Sama dómnefnd valdi Jón Ásgeir Jóhannesson viðskiptamann ársins.
Icesave-reikningarnir voru á allra vitorði. Enn hefur enginn bent á nokkurn mann sem hélt því fram að ábyrgð á þeim kynni að lenda á íslenska ríkinu. Sem að vísu er skiljanlegt, því fyrir slíkri niðurstöðu eru engin lagaleg rök eins og allir viðurkenna nema íslenskir stjórnarþingmenn. En þeir sem nú láta eins og Ísland geti ekki „hlaupið frá skuldbindingum sínum“, enginn þeirra hafði nefnt einu orði, að þeir teldu ríkisábyrgð á erlendu reikningunum, sögðu aldrei viðvörunarorð um að þarna væru að skapast „skuldbindingar“. En fræðimennirnir, sem aldrei nefndu neitt í þessa veru, eru alltaf jafn miklir aufúsugestir í fréttatímum og umræðuþáttum.