E ins og menn vita hafa ekki verið færð fram lögfræðileg rök fyrir því að Íslandi beri að ábyrgjast Icesave-skuldir Landsbankans. Íslensk stjórnvöld, helstu stuðningsmenn Breta og Hollendinga í málinu, beittu hins vegar þeim hræðsluáróðri, að Ísland yrði að gangast í ábyrgðina því annars fengist ekki endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þá fengi landið ekki „aðgang að lánamörkuðum“ og það væri mjög vont.
En nú eru þessi „rök“ úr sögunni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að endurskoða áætlunina og hefur tekið skýrt fram að þar með sé opinn aðgangur Íslands að lánum frá honum og nágrannalöndunum. Þetta hefur fjármálaráðherra nú sjálfur fullyrt á alþingi. Steingrímur J. Sigfússon fullyrðir beinlínis að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi engin skilyrði og enga fyrirvara gert um niðurstöðu alþingis í Icesave-málinu og þar með er úr sögunni að menn þurfi að gangast undir Icesave-ábyrgðir vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða aðgangs að erlendum lánum.
Og hvaða rök eru þá eftir, fyrir því að leggja hundruð milljarða króna á fædda sem ófædda Íslendinga? Jú, Samfylkingin vill ekki móðga ríki sem gætu spillt fyrir Evrópusambandsumsókn Össurar Skarphéðinssonar og einhverjir vinstrigrænir halda ranglega að ríkisstjórnin spryngi og þeim yrði kennt um, ef ekki verður látið undan.
Ef fleiri þingmenn vinstrigrænna en Lilja Mósesdóttir rakna úr rotinu áður en það verður um seinan, mun ekki annað gerast en að óbornar kynslóðir Íslendinga munu sleppa við Icesave-skuldirnar. Ríkisstjórnin mun sitja áfram, enda enginn stjórnarþingmaður sem mun hætta stuðningi við hana vegna þessa máls.
Og þingmenn vinstrigrænna munu hafa einni og veigamestu ástæðunni færra til að blygðast sín fyrir, þegar þeir munu horfa til baka síðar. Það ætti að vera nokkurs virði.