J óhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var spurð að því á þingi Norðurlandráðs hver reynsla Íslendinga af lögum um fæðingarorlof frá árinu 2000 væri. Jóhanna tjáði fundargestum að reynslan væri afar góð.
Strax á fyrsta ári eftir að lögin voru komin til framkvæmda tæmdist sjóðurinn sem greiða átti fæðingarorlofið. Hann hefði orðið gjaldþrota ef ekki hefðu komið til aukin framlög úr ríkissjóði. Það hefur svo verið árviss regla að sjóðurinn stefni í þrot. Tekjur sjóðsins voru meðal annars klipnar af tryggingagjaldi atvinnuleysistryggingasjóðs sem veikti þann sjóð verulega og gerir honum ekki auðveldar að takast á við erfitt atvinnuástand um þessar mundir. Lögin hafa kostað skattgreiðendur tugi milljarða króna síðan þau tóku gildi. Þeir kæmu sjálfsagt í góðar þarfir núna.
En hvað um það, hugmyndafræðingarnir fæðingarorlofslaganna, gáfu aldrei mikið fyrir þau rök gegn lögunum að þau myndu verða skattgreiðendum dýr. Hugmyndafræðin var hafin yfir krónur og aura. Og stendur hugmyndafræðin þá ekki enn fyrir sínu?
Hryggjarstykkið í lögunum var að menn fengju 80% tekna greidd í fæðingarorlofi. Það var talið algerlega ófrávíkjanlegt grundvallaratriði, að öðrum kosti tækist ekki að koma sálarlausu hátekjukörlum heim að vöggunni. Um það voru til að mynda Jóhanna og Pétur Blöndal alþingismaður sammála. Á fyrstu árunum eftir að lögin tóku gildi greiddi Tryggingastofnun ríkisins, sem þá rak Fæðingarorlofssjóð, út milljónir til forstjóra og annars hátekjufólks í fæðingarorlofi. Þótti ýmsum nóg um og við fyrstu raunveruleikatengingu setti Alþingi þak á greiðslur úr sjóðnum. Síðan hefur þakið verið lækkað jafnt og þétt. Nú berast fréttir af því að þakið sé komið niður í 350 þúsund krónur á mánuði en engu að síður er það staðreynd að ríkissjóður hefur ekki efni á fjármagna þau.
Fæðingarorlofslögin frá árinu 2000 eru því ekki aðeins margfaldlega tæknilega gjaldþrota heldur hefur þeim verið breytt í grundvallaratriðum. Það stendur ekki steinn yfir steini í kerfinu sem Jóhanna Sigurðardóttir sagði stolt að hefði reynst svo vel.