Í sumar samþykkti alþingi lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Með þeim var fjármálaráðherra heimilað, að uppfylltum vissum skilyrðum, að ábyrgjast lán vegna þessara reikninga, á ábyrgð ríkissjóðs. Eitt skilyrðanna var að bresk og hollensk yfirvöld lýstu því yfir að þau samþykktu öll skilyrðin.
Það gerðist ekki. Samkvæmt gildandi íslenskum lögum er fjármálaráðherra því ekki heimilt að veita ríkisábyrgðina.
Ríkisstjórnin hefur fullyrt að endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé bundin því að Icesave-málinu ljúki, og þá með sigri Breta og Hollendinga. Í dag var efnahagsáætlunin endurskoðuð, en gildandi íslensk lög eru enn þau að fjármálaráðherra er ekki heimilt að veita ríkisábyrgðina.
Hvernig getur staðið á þessu?
Tvennt kemur til greina. Annars vegar að íslensk stjórnvöld hafi farið með rangt mál þegar þau sögðu endurskoðunina háða því að Icesave-málum væri endanlega lokið.
Hins vegar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Bretum og Hollendingum, hafi verið sagt að völdin í málinu hafi verið tekin frá alþingi og færð upp í stjórnarráð. En hvenær gerðist það þá, hvernig og með fulltingi hvaða manna?
Og svo því sé haldið til haga: Samkvæmt gildandi lögum er engin ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans. Því getur meirihluti alþingis því miður breytt, en það hefur hann ekki gert enn.
Hvernig stendur á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lætur eins og málið sé afgreitt, áður en alþingi Íslendinga kemst að? Hvernig stendur á því að sjóðurinn telur sig ekki þurfa að bíða afgreiðslu alþingis? Hvaða þrjátíu og tveir alþingismenn hafa á laun skuldbundið sig til þess að breyta nýsamþykktum lögum, að kröfu erlendra ríkja? Er hægt að fá að vita það? Eru Ögmundur Jónasson, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir búin að framselja atkvæðisrétt sinn á þingi upp í stjórnarráð, þaðan sem hann hefur þá verið sendur með hraði úr landi?
Og ef þau telja sig hafa framselt atkvæði sitt í þessu máli, þá verður auðvitað spurt í hvaða fleiri málum þau eru ekki lengur alþingismenn.
ÍÍ dag fór vösk sveit manna á fjöll á Vestfjörðum og smalaði þaðan fé, sem þar mun hafa gengið villt í nokkur ár. Er sagt að áratugum saman hafi útigangsfé hafst þar við og sé kominn vísir að stofni. En nú hefur verið tekið fyrir það, í nafni dýraverndar. Nokkrar kindur fóru að vísu fyrir björg fremur en að ganga í fang björgunarmanna sinna, en hinar fara í sláturhús á morgun. Allt er þetta gert í nafni dýraverndar, eins og Örn Arnarson orðaði á sínum tíma
Mannúðin okkar manna
er mikil og dásamlig,
við göngum svo langt í gæðum
að Guð má vara sig.