Öll vinna Jóhönnu við „lausn Icesave-málsins“, og þá Steingríms, snerist um að beygja nokkra þingmenn vinstrigrænna; að draga þá sem allra allra lengst til krafna Breta og Hollendinga. Sjálf höfðu þau Jóhanna og Steingrímur ekkert á móti því í sumar að samþykkja upphaflegan Icesave-samning fyrirvaralausan. Þau skildu ekkert í þrefinu á alþingi í sumar og höfðu engan áhuga á því sem þar fór fram. Jóhanna mátti einfaldlega ekki til þess hugsa að Bretar og Hollendingar brygðu fæti fyrir Evrópusambandsinngöngu Össsurar Skarphéðinssonar, og Steingrímur J. Sigfússon mátti ekki til þess hugsa að Jóhanna ryki úr stjórninni og blogglúðrasveitin kenndi honum um.
En spurningin til Jóhönnu og Steingríms er: Hver eru takmörk þess sem þið eruð tilbúin að gefa eftir, til þess að friðmælast við Breta og Hollendinga? Þið eruð nú þegar búin að skuldbinda Íslendinga, án skyldu, til að greiða þessum ríkjum hundruð milljarða. Hvar drægjuð þið mörkin? Mætti ekki alveg eins gefa þeim tvær eða þrjár virkjanir? Þær eru minna virði.
Eða svo horft sé til þekkts dæmis úr Íslandssögunni, um tilhneigingu innlendra ráðamanna til að fallast á erlendar kröfur, með þeim rökum að landið ráði líklega við þær: Mynduð þið streitast á móti ef þeir bæðu um Grímsey, gegn því að „fyrsta hreina vinstristjórnin“ fengi að lafa fram á vor?
Hvað hefði þurft til, svo Jóhanna hefði sagt að nú væri of nærri Íslandi gengið? Veit einhver það?
S umir bregðast aldrei. Um helgina birti Fréttablaðið niðurstöður könnunar þar sem spurt hafði verið spurningarinnar: „Hvaða stjórnmálamanni treystir þú best?“ Niðurstöður urðu þær, að af þeim sem tóku afstöðu treystu flestir Steingrími J. Sigfússyni best, í öðru sæti kom Jóhanna Sigurðardóttir, Bjarni Benediktsson var þriðji, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fjórði og Ögmundur Jónasson fimmti.
Í sjöunda sæti, þrátt fyrir að hafa hætt í stjórnmálum fyrir mörgum árum, kom Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra. Er það til dæmis meiri stuðningur en átta af tíu ráðherrum ríkisstjórnarinnar og allir þingflokksformenn njóta. Einhverjum hefði þótt þetta töluverð traustsyfirlýsing. En Fréttablaðið bregst ekki vonum aðdáenda sinna og gerir sérstaka frétt af þessu tilefni, undir fyrirsögninni… vill einhver giska? Jú: „Ekki eftirspurn eftir Davíð Oddssyni“.
En Davíð var ekki einungis ofar en átta af tíu ráðherrum og ofar en allir sveitarstjórnarmenn landsins, Þegar niðurstöður voru greindar eftir kyni hlaut Davíð til dæmis meiri stuðning meðal kvenna en bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir, sem þó eru báðar enn í stjórnmálum og báðar raunar varaformenn síns flokks.
Þetta er svipað og spurt yrði: „Hvaða þjóðarleiðtoga langar þig helst að hitta?“, og auk hefðbundinna svara um Obama, Sarkozy og Merkel kæmi inn á milli efstu manna löngu hættur Jimmy Carter. Þá þyrfti aðdáunarverða hörku til að búa til sérstaka frétt: „Fáir vilja hitta Carter“.