A uðvitað er alger sigur krata á svonefndum samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn í Icesave-málinu, og alger uppgjöf þeirri vinstrigrænna sem í sumar létu eins og þeir hugsuðu fyrst og fremst um hagsmuni Íslands, frétt helgarinnar. En önnur frétt frá helginni má ekki gleymast. Það er hin alvarlega frétt Ríkisútvarpsins um að sérstakur saksóknari rannsaki nú hlutabréfaviðskipti ráðuneytisstjóra eins.
Það alvarlega við fréttina er þó ekki sjálft efni hennar. Sé það rétt að saksóknarinn rannsaki nú viðskiptin, þá hefur það einfaldlega sinn gang og ekkert um það að segja á þessu stigi. Það sem er alvarlegt og kallar á frekari skoðun, er sú staðreynd að upplýsingar um þetta rötuðu í fréttatíma.
Og hvers vegna er það mikið athugunarefni? Jú, það er vegna þessa:
Hver getur vitað af rannsókninni? Fram kom í fréttum að ráðuneytisstjórinn sjálfur hafði ekkert af henni heyrt. Sömuleiðis kom fram að fjármálaeftirlitið hefði fyrir löngu lokið rannsókninni og talið skýringar vera á öllu. Þessi rannsókn er því ekki á þess vegum. Varla dettur nokkrum manni í hug að sérstaki saksóknarinn hringi í fréttamenn til að láta vita af rannsókn sem sá rannsakaði veit ekki um. Hvaða aðilar eru þá eftir?
Er einhver sem hefur hag af því að rannsóknin fréttist núna?
Um leið og fréttir bárust af rannsókninni sagði menntamálaráðherra að mál ráðuneytisstjórans yrði skoðað í ljósi rannsóknarinnar, nú strax eftir helgi. Ráðuneytisstjórinn starfar nú í menntamálaráðuneytinu, í leyfi frá fjármálaráðuneytinu og samkvæmt fréttum hefði hann að óbreyttu komið aftur í fjármálaráðuneytið um áramótin. En fyrst að hann er í rannsókn, ja getur hinn vandaði fjármálaráðherra þá tekið við honum?
Hver getur hafa leikið fréttinni? Hver getur treyst á fullkomna þagmælsku fréttastofu Ríkisútvarpsins? Þetta er furðulegt mál. En ekki þarf að efast um að ráðherrar munu bregða hart við og krefjast rannsóknar á lekanum.
Þetta mál þarfnast frekari skoðunar. Íslenskir fréttamenn munu hins vegar ekki hafa nokkurn áhuga á þessari hlið á því. Svo er nýjasta Icesave-uppgjöf vinstrigrænna líka mál málanna.