S umir stjórnarandstæðingar hafa eitthvað misskilið fréttirnar af Icesave-málum dagsins. Þeir segja nefnilega að nú hafi ríkisstjórnin í annað sinn gefist upp. Þetta er misskilningur. Íslenska ríkisstjórnin gafst ekki upp nú um helgina heldur þvert á móti.
Vissulega fellst Ísland á allar kröfur viðsemjenda sinna og fær ekkert í staðinn. En það eru ekki ný tíðindi. Allt frá upphafi hefur núverandi ríkisstjórn haft samtals tvö trúaratriði sem allt víkur fyrir. Þau eru þessi:
Trúaratriði Samfylkingarinnar er: Ísland verður að ganga í Evrópusambandið. Allt sem getur tafið það, við erum á móti því. Þeir sem geta hindrað okkur í að komast í Evrópusambandið, við viljum gera allt til að hafa þá góða.
Trúaratriði vinstrigrænna er: Nú hefur verið mynduð „fyrsta hreina vinstristjórnin“. Það má ekki vera okkur að kenna ef hún missir völdin. Þeir sem geta sprengt þessa stjórn, við viljum gera allt til að hafa þá góða.
Og þess vegna láta báðir aðilar undan, í hvert einasta sinn sem einhver hvessir sig, hvort sem það eru Bretar að hóta að bregða fæti fyrir inngöngubeiðni Samfylkingarinnar í Evrópusambandið, eða Samfylkingin sem sendir blogglúðrasveit sína, álitsgjafa og „fræðimenn“ í fjölmiðla til að segja að það verði vinstrigrænum að kenna ef ríkisstjórnin steytir á skeri. Og því lætur Samfylkingin undan fyrir Bretum og vinstrigrænir fyrir Samfylkingunni.
En ótti vinstrigrænna við stjórnarslit er ástæðulaus. Í fyrsta lagi myndi Samfylkingin ekki rjúfa stjórnarsamstarfið þó Icesave-ábyrgðirnar yrðu ekki felldar á Ísland eins og Bretar og Hollendingar og þar með Samfylkingin krefjast. Samfylkingin vill ekki fá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Og það sem meira er, sjálfstæðismenn myndu ekki þora í ríkisstjórn með vinstrigræna utan stjórnar. Fyrir dyrum stendur niðurskurður ríkisútgjalda, auðvitað mun minni en ástæða er til, en mun meiri en venjulegt stjórnmálamannshjarta ræður við. Við núverandi aðstæður vill enginn stjórnmálaflokkur standa í slíku nema vinstrigrænir verði með í því. Tugmilljarða niðurskurður, við núverandi aðstæður, en með vinstrigræna utan stjórnar, er meira en núverandi stjórnarandstaða myndi treysta sér til. Stjórnarandstaðan myndi verja minnihlutastjórn vinstrigrænna, en ekki þora í neitt annað. En til þess mun ekki koma.
Staðreyndin er sú, að hótanir Samfylkingarinnar um stjórnarslit eru innistæðulausar. En vinstrigrænir eru ekki meiri bógar en stjórnarandstöðuþingmennirnir, og því er enn nokkuð í að þeir taki að hlæja framan í Samfylkinguna og bjóða henni vinsamlegast að standa við stóru orðin. Því munu þeir enn og aftur nú mæta móðir og lúbarðir undir lúðrablástur Össurar Skarphéðinssonar og halda áfram að greiða atkvæði með málum sem þeir eru á móti.
Og þingmenn sem síðsumars töluðu digrum rómi um að stjórnarandstaðan hefði lyppast niður og því hefðu ekki náðst betri fyrirvarar en raun bar vitni um, þeir munu nú í vikunni telja allskyns breytingar á fyrirvörunum, að kröfu Breta og Hollendinga, vera jákvæða þróun. Samfylkingin getur enn treyst á atkvæði vinstrigrænna. Þeir munu telja út hversu margir mega fara í principmanna-leik, en þeir munu sjá til þess að Bretar, Hollendingar og Samfylkingin fái sitt fram. Það mun að vísu kosta íslenskan almúga nokkur hundruð milljarða króna, í erlendum gjaldeyri, en það er lítið gjald fyrir að vera ekki kennt um að „fyrsta hreina vinstristjórnin“ springi. Sem hún þó hefði ekki gert, eins og vinstrigrænir munu raunar skilja, en ekki fyrr en það verður orðið allt, allt of seint.