H vernig er aftur lagagreinin sem kveður á um greiðsluskyldu íslenska ríkisins í tryggingarsjóð innistæðueigenda? Ja í lögunum um tryggingarsjóðinn segir um greiðsluskyldu í hann:
Nýr viðskiptabanki eða sparisjóður skal greiða sérstaklega til deildarinnar 1. mars ár hvert frá því að hann hefur starfsemi hér á landi 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári þar til lágmarki skv. 1. mgr. er náð. Auk þess leggur hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður fram ábyrgðaryfirlýsingu sem stjórn sjóðsins metur gilda fyrir mismun á greiðslu til sjóðsins og lágmarki skv. 1. málsl. |
Það þarf ansi góðan vilja til að lesa það út úr þessari lagagrein að ríkissjóður Íslands fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda eigi að leggja þessum sjóði til fé. Samsvarandi grein er um greiðslur verðbréfafyrirtækja í sjóðinn. Aðrir en viðskiptabankar, sparisjóðir og verðbréfafyrirtæki hafa engar skyldur við þennan sjóð og hafa aldrei haft. Hann er ekki einu sinni í eigu ríkisins á nokkurn hátt heldur sjálfseignarstofnun.
Það er því alveg ótrúlegt að það skuli nokkur maður halda því fram að íslenska ríkið eigi að gangast í ábyrgð fyrir fyrir tryggingasjóðinn fyrir fjárhæð sem nemur öllum tekjum ríkissjóðs í tvö ár.
Og sérlega er það ógeðfellt að menn skuli líta á deiluna sem eitthvert reikningsdæmi. Hvert er greiðsluþol íslensku þjóðarinnar, spyrja menn sem hafa algerlega misst sjónar á raunverulegu spurningunni um hvort ríkissjóði beri að greiða í þennan sjóð. Svo stinga þeir fingri út í loftið og tilkynna að þolið sé 2% af landsframleiðslu. Ef að gengið styrkist og hagvöxtur verði 3%, verðbólga 4%, atvinnuleysi 5%. Svona eins og enginn hafi heyrt af því að ekki stendur steinn yfir steini í þeim flestum þeim hagspám sem gerðar hafa verið undanfarna áratugi.
Icesave-deilan er ekki reikningsdæmi fyrir hagfræðinga heldur spurning um lög og rétt.
Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður getið gerði Sigurður Líndal lagaprófessor þessu góð skil í lítilli grein í Fréttablaðinu. 13.ágúst í sumar. Þar sagði hann meðal annars.
Nú mega það kallast firn mikil ef heil þjóð – og þá einnig komandi kynslóðir – eigi að ábyrgjast himinháar greiðslur sem einstaklingar hafa með umsvifum sínum stofnað til án þess að íslenzk stjórnvöld og íslenzkur almenningur hafi haft þar forgöngu. Ef íslenzka ríkið og þar með þjóðin ætti að bera slíka ábyrgð yrði hún að styðjast við skýr fyrirmæli í lögum, fjölþjóðlegum samningum eða löglega bindandi yfirlýsingar forystumanna þjóðarinnar En skilmerkilegar skýringar láta á sér standa og allar tilraunir til rökfærslu hafa endað í orðræðu sem litlu skilar. Það sýnir að minnsta kosti að óljóst er um ábyrgð Íslands. Nú standa þjóðir Norðurlanda Íslendingum næst og því er rétt og eðlilegt að forystumenn þeirra þjóða verði krafðir svara við því hver sé hin skýra lagastoð fyrir þessum alþjóðlegu skuldbindingum. Raunar skulda Norðurlönd Íslendingum einnig skýringu á því hvers vegna því er hafnað að leggja málið undir dóm, hvort sem það væri eiginlegur dómstóll, gerðardómur eða sáttanefnd. |
Sigurður tók ágætt dæmi um hve veigalítill málflutningur þeirra sem vilja gangast undir Icesave-ánauðina
Í grein í Morgunblaðinu 7. júlí sl. fullyrti Jón Baldvin Hannibalsson að íslenzka ríkið bæri ábyrgð á lágmarksinnstæðutryggingu sem næmi 20.887 evrum án nokkurrar viðhlítandi tilvísunar í lög eða þjóðréttarsamninga. Í greinarkorni í Fréttablaðinu bað ég Jón að nefna lagastaði fullyrðingu sinni til stuðnings. Það hefur hann ekki gert þótt nú sé mánuður liðinn. Af því verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að hann hafi farið með staðlausa stafi.
Þá fullyrti hann að ekki fyndist neinn lögfræðingur utan landsteina sem tæki mark á „heimatilbúinni“ skýringu nokkurra íslenzkra lögfræðinga um að ábyrgð væri takmörkuð við „tóman“ tryggingasjóð. Það er nú reyndar rangt að tryggingasjóður hafi verið „tómur“, en látum það liggja milli hluta. Um hina heimatilbúnu skýringu sem enginn lögfræðingur utan landsteinanna taki mark á verður Jón Baldvin að sætta sig við að undir hana hafa tekið brezku lögmannsstofurnar Miscon de Reya og Lowell í London og belgíska lögmannsstofan Schiödt í Brussel, svo að enn bætast ósannindi ofan á ósannindi. Til viðbótar stendur upp á hann að skýra hversvegna Bretar og Hollendingar hafna allri dómsmeðferð úr því að málstaður þeirra er jafn traustur og hann vill vera láta. |