Þ að voru aldeilis kveðjurnar sem Steingrímur J. Sigfússon sendi Ögmundi Jónassyni þegar Ögmundur baðst lausnar frá ráðherradómi. Þegar núverandi formaður vinstrigrænna var spurður um afsögn ráðherrans, þessa eins allra helsta forystumanns flokksins, talaði hann eingöngu um að Ögmundur hefði þurft að standa í miklum niðurskurði í ráðuneytinu og það verið honum þungbært. Steingrímur minntist ekki á Icesave-málið fyrr en hann var sérstaklega spurður.
Eins og menn vita hefur Ögmundur Jónasson vísað til Icesave-málsins og þeirra afarkosta sem svonefndir félagar hans í ríkisstjórn hafi gert honum, þegar hann hefur verið spurður um afsögn sína. Steingrímur J. Sigfússon reynir því að grafa mjög eindregið undan trúverðugleika Ögmundar með þessum skýringum sem hann reyndi að telja landsmönnum trú um að byggju í raun að baki ákvörðun Ögmundar.
Það sem Steingrímur segir er þetta: Ögmundur þurfti að standa í niðurskurði, en hann réði ekki við það. Hann rennur þess vegna af hólmi, en er ekki maður til að segja það hreint út, heldur gefur Icesave-málið upp sem tylliástæðu. Hann er ekki aðeins ósannindamaður heldur heigull.
Nú er Vefþjóðviljinn ekki sérstakur pólitískur bandamaður Ögmundar Jónassonar, en þykir þessi framganga Steingríms J. með algerum ólíkindum, og það gagnvart manni sem hefur verið náinn samstarfsmaður Steingríms lengi, og Steingrímur veit að er annt um trúverðugleika sinn. Og það ætti að blasa við öllum mönnum að það er ekki hræðsla við niðurskurð sem hefur rekið Ögmund Jónasson úr ráðherraembætti.
Hví segir Vefþjóðviljinn það? Vegna þess að enginn stjórnmálamaður á Íslandi hefði minni ástæðu til að óttast það að þurfa að standa fyrir niðurskurði í heilbrigðismálum. Allir, stjórnmálamenn, fréttamenn og ekki síst opinberir starfsmenn, myndu alltaf vita að Ögmundur Jónasson skæri þar ekki niður að gamni sínu. Enginn myndi halda því fram að niðurskurðurinn væri vegna pólitískrar stefnu hans, eða löngunar til að skerða opinbera heilbrigðiskerfið, svo sem til að auka möguleika einkarekstrar. Allir myndu átta sig á, að Ögmundur Jónasson myndi ekki skera einni krónu meira niður en hann teldi algerlega óhjákvæmilegt. Starfsfólk spítalanna, opinberir starfmenn, sem auðvitað myndi ekki fagna niðurskurðinum myndu ekki líta á Ögmund sem andstæðing – eins og þeir myndu gera við næstum alla heilbrigðisráðherra sem reyndu að skera niður – heldur sem samherja sem ekki hefði átt annan kost.
Vefþjóðviljinn er ekki sá eini sem skilur þetta. Þetta vita þeir Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon báðir mætavel, enda hvarflar að hvorugum þeirra að Ögmundur hafi sagt af sér af gunguskap vegna væntanlegs niðurskurðar. Steingrímur J. Sigfússon, sem sjálfur hefur misst meginhlutann af eigin trúverðugleika vegna framgöngu sinnar í sumar, sér hins vegar ofsjónum yfir trúverðugleika Ögmundar, sem hefur komist merkilega óskaddaður frá síðustu vikum.