N ú eru menn byrjaðir að tala um það, hvort „dómstólaleiðin sé fær“, eftir nýjustu þróun Icesave-málsins. Flest það tal er hefðbundinn misskilningur.
Íslensk stjórnvöld þurfa ekki að leita að dómstóli til að taka deilumál þetta fyrir. Íslensk stjórnvöld þurfa ekki að velta fyrir sér með öndina í hálsinum hvort „dómstólaleiðin“ sé „enn fær“. Íslendingar eru ekki að rukka neinn í þessu máli. Það eru Bretar og Hollendingar sem láta eins og þeir eigi kröfu á Íslendinga. Ef að íslensk stjórnvöld leggjast ekki flöt og draga upp hvítan fána, þá þurfa bresk og hollensk stjórnvöld að „fara dómstólaleiðina“, ef þeir vilja fá kröfu sína viðurkennda. Það hafa þau hingað til verið ófáanleg til að gera, og allir þeir sem hvorki starfa á alþingi né fjölmiðli skilja hvað það þýðir.
Alþingi Íslendinga ákvað á dögunum að heimila með lögum fjármálaráðherra Íslands að ábyrgjast tiltekna lántöku tryggingasjóðs innstæðueigenda, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eitt skilyrðanna var að þau yrðu öll kynnt breskum og hollenskum stjórnvöldum, sem myndu samþykkja þau skilmálalaust. Þetta hefur ekki gengið eftir. Hvað ætti alþingi Íslendinga að gera næst?
Það er þetta: Nú ætti alþingi þegar að koma saman og samþykkja ný lög, þar sem lögin sem heimiluðu veitingu ríkisábyrgðarinnar væru felld úr gildi. Hafi Hollendingar og Bretar áður átt á brattann að sækja, lögfræðilega, í málinu, þá myndu vandræði þeirra aukast um allan helming við það. Þannig lægi fyrir í málaferlum að íslenska þingið hefði komið til móts við þessi ríki með því að bjóða þeim mun ríkari rétt en þau áttu áður, en því boði hefði verið hafnað.
Nú á alþingi Íslendinga að samþykkja svohljóðandi lagafrumvarp, sem Vefþjóðviljinn afsalar sér höfundarrétti á:
Frumvarp til laga um niðurfellingu heimildar til handa fjármálaráðherra til að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu. |
1. gr. Lög nr. 93/2009 um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., falla niður. 2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. Athugasemdir með lagafrumvarpi þessu. Sá sem ekki vill þegar hann fær, fær ekki þegar hann vill. |