Föstudagur 18. september 2009

261. tbl. 13. árg.
Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.
– Úr 1. gr. laga nr. nr. 93/2009 um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

H vernig stendur á því að fréttamenn hafi í sólarhring velt fyrir sér hvort hvort „þingið þurfi að koma að málinu“, ef ríkisstjórnin hyggst semja við Breta og Hollendinga samkvæmt sjónarmiðum þeirra síðarnefndu, vegna Icesaveábyrgðarlaganna sem alþingi samþykkti í síðasta mánuði?

Málið er ákaflega einfalt. Með lögum hefur fjármálaráðherra verið heimilað að veita ríkisábyrgð á láni sem tryggingarsjóður innlána hyggst taka til að greiða þeim erlenda sjóði sem þegar hefur greitt innistæðueigendum í Bretlandi og Hollandi vegna Icesave-reikninganna. Samkvæmt lögunum er það skilyrði heimildarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir fyrirvarar alþingis og „þau fallist á þá“.

Fréttir herma að bresk og hollensk stjórnvöld hafi ekki fallist á fyrirvarana. Þar með hefur fjármálaráðherra ekki heimild til að veita ríkisábyrgðina. Þetta er afar einfalt og merkilegt að fréttamönnum hafi ekki tekist að setja málið í þetta einfalda samhengi. Í sólarhring hafa verið furðulegar og óþarfar vangaveltur um það sem blasir við.

Fjármálaráðherra hefur ekki heimild til þess að veita ríkisábyrgð nema bresk og hollensk stjórnvöld fallist á fyrirvara alþingis, eins og þeir eru í lögunum.

Vilji stjórnvöld að lögunum verði breytt, svo þetta skilyrði verði fellt niður, þurfa þau að skipa þingmönnum að afnema þann fyrirvara sem þeir töldu gríðarlega mikilvæga fyrir mánuði. Fyrirvara sem öll ríkisstjórnin greiddi atkvæði með, þegar hann var borinn upp í breytingartillögu við stjórnarfrumvarpið, sem upphaflega gerði ekki ráð fyrir neinum fyrirvörum.

E n fréttirnar um andmæli Breta og Hollendinga hafa þó orðið til þess að forkólfar ríkisstjórnarinnar birtast í fjölmiðlum. Jóhanna Sigurðardóttir er til dæmis bálreið. Út í íslensku stjórnarandstöðuna. En gagnrýnir auðvitað hvorki Breta né Hollendinga. Ögmundur Jónasson er líka mjög reiður. Aðallega út í Sjálfstæðisflokkinn.