Fimmtudagur 17. september 2009

260. tbl. 13. árg.

Þ egar þáverandi minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, Samfylkingu, vinstrigrænum og F-lista, tókst að fá borgarfulltrúa Framsóknarflokksins til þess að slíta meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, fóru valdaskipti fram í ráðhúsinu með friðsemd þó fréttamenn væru auðvitað spenntir yfir nýja vinstrimeirihlutanum.
Rúmum þremur mánuðum síðar endurtók sagan sig, nema í hina áttina. Þá fór fulltrúi F-listans úr nýja meirihlutanum og myndaði annan með Sjálfstæðisflokknum. En þá var allur friður úti. Efnt var til réttarhalda yfir borgarfulltrúanum í fjölmiðlum, í skemmtiþáttum Ríkissjónvarpsins var ekki hikað við að ganga út frá því að maðurinn væri veikur á geði, og við valdaskipti var varla fundafriður í borgarstjórn. Ungliðahreyfingar vinstriflokkanna skipulögðu mótmæli á áhorfendapöllum, fresta varð fundi vegna öskrandi ungmenna sem hrópuðu „Þetta er okkar borgarstjórn“ þegar rétt kjörnir fulltrúar reyndu að tala. Framhaldsskólakennarar gáfu frí úr skóla, svo menn gætu farið niður í ráðhús að öskra.

Borgarstjórn fékk í vikunni til meðferðar samning um sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS-orku. Þá voru menn aftur mættir á pallana, öskrandi og gargandi. Fréttamönnum finnst ekkert sjálfsagðara.

Það er eins og sumir hafi fengið þau skilaboð að þeir megi öskra til sín völd og áhrif. Rétt eins og síðasta vetur þegar menn reyndu að öskra burt ríkisstjórn, grýta lögregluna, hinda ríkisstjórn frá því að funda, gera sjálft alþingi óstarfshæft vegna hávaða og grjótkasts og krefjast með öskrum að einhverjir embættismenn yrðu reknir, í blóra við lög og rétt. Í hálft ár eða svo, fylgdust fréttamenn spenntir með, en spurðu aldrei hvaðan þessu fólki kæmi rétturinn til að fá kröfum sínum fullnægt. En höfðu mikinn áhuga á því hvort lögreglan færi ekki örugglega „offari“ gegn „mótmælendum“ .

En nú hafa „mótmælendur“ fengið þá ríkisstjórn sem þeir vildu, svo nú er ekki lengur öskrað um „vanhæfa ríkisstjórn“ eða rúður brotnar í þinghúsinu og borinn eldur að því. En þá er öskrað í ráðhúsinu.

Það er auðvitað óhugnanlegt ef menn komast upp með slíka háttsemi. Enn óhugnanlegra er þó, ef svokallað venjulegt fólk lætur slíkt og annað eins yfir sig ganga, jafnvel af ótta. Fórnar fleiri og fleiri grundvallaratriðum, til þess að „halda friðinn“.

Nú er orðið algengt að menn telji sig ekki þurfa að fara að lögum, jafnvel menn sem halda að þeir sjálfir þyki marktækir í umræðu og saka þar aðra stundum um lögbrot. Þeir sem eiga að halda uppi lögum og reglum virðast stundum ekki leggja í það, vitandi af öskrunum sem slíkir aðilar fá yfir sig nú á dögum. Æsingamenn umræðunnar læra inn á þetta og fara margir hverjir sínu fram og láta sig engu varða hvað lög segi. Aðfinnslum og gagnrýni svara þeir ekki með rökum heldur frekju og svívirðingum. Fréttamenn láta það allt gott heita.