Í gær sagði Morgunblaðið frá því að ríkisstjórnin ræddi nú þá hugmynd að afborganir af lánum yrðu tengdar við tekjur skuldarans. Merkilegt hvernig stjórnvöld ná iðulega að samræma það að fá fáar hugmyndir og slæmar hugmyndir.
Með öðrum orðum, það á að stórauka hagsmuni fólks af því að laun þess séu sem lægst. „Svört vinna“ verður enn ábatasamari en áður, sá sem bætir við sig vinnu þarf að greiða hærri afborganir á lánum en þeir sem minnka við sig vinnu, taka ekki að sér verkefni, vinna ekki yfirvinnu, afborganir þeirra lækka.
Hversu oft var ekki talað um að fólk mætti ekki „festast í fátæktargildru“, að tekjutengingar yrðu mjög til þess að draga úr starfsvilja fólks. Á síðustu kreppuárum, í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar hamaðist verkalýðshreyfingin og þáverandi stjórnarandstaða í því að sem flest yrði tekjutengt. Reynslan sýndi það sem mátti alltaf blasa við, að tekjutengingar draga mjög þrótt úr atvinnulífinu. Næstu árin var afnám tekjutenginganna eitt mesta baráttumálið. Nú er hins vegar rætt um að taka þær upp aftur, og ekki í samhengi við smávægilegar bætur heldur hreinlega afborganir af skuldum fólks.
En við völd er auðvitað fólk sem er á móti sæmilegum tekjum, en vill hafa sem flesta á lágum tekjum og helst upp á opinberar bætur komið. Slíkum stjórnmálamönnum þykja tekjutengingar alltaf spennandi kostur.
ÍÍ gærkvöldi sagði Ríkissjónvarpið frá því að á Djúpavogi væri nú gagnrýnt að sveitarfélagið hefði eytt þremur milljónum króna í útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson. Ekki fengu gagnrýnendur þessarar eyðslu fámenns sveitarfélags þó orðið, því í fréttinni voru aðeins spiluð sjónarmið sveitarstjórans, sem jafnaði málinu við jólaskreytingar og snjómokstur. Þá kom fram í fréttinni að þetta væri í annað sinn á árinu sem opinber eyðsla í verk Sigurðar vekti gagnrýni, en nýlega hefði Listasafn Íslands keypt eftir hann ljósmynd, sem listaspírum þykir mikið lykilverk, á tíu milljónir króna. Þar var hins vegar ekki rætt við neinn, hvorki gagnrýnanda né verjanda, sem kannski var óþarft því fréttamaðurinn sjálfur tók að sér vörn málsins: „Þetta er í annað sinn á þessu ári sem kostnaður vegna verka Sigurðar Guðmundssonar vekur umtal. Listasafn Íslands keypti eitt þekktasta verk Sigurðar, verkið Mountain, og borgaði fyrir það tíu milljónir króna, sem er dýrasta verk sem safnið hefur keypt. Þetta teljast varla háar upphæðir í hinum alþjóðlega heimi lista, sérstaklega ekki þegar um er að ræða jafn virtan listamann og Sigurður Guðmundsson er. Kannski erum við Íslendingar bara hreinlega ferkantaðir í hugsun þegar kemur að listum.“