Þessi vinsamlega fullyrðing blaðsins leiðir hugann að litlu máli, smávægilegu auðvitað, en á vissan hátt dæmigerðu. Fríið sem Steingrímur tekur sér nú, og Vefþjóðviljinn amast ekki við, er að vísu ekki hans fyrsta síðustu mánuði, en það skiptir litlu. En smávægilega málið sem rifjast upp við þessa fullyrðingu Morgunblaðsins er frá því í maí. Þá stóðu yfir stjórnarmyndunarviðræður eftir alþingiskosningarnar og gengu hægar en margur hafði búist við, og lýstu ýmsir áhyggjum af því þar sem mjög lægi á aðgerðum stjórnvalda „til bjargar heimilunum“ . Bar meira að segja svo við að yfir eina helgi og lengur virtist sem ekki væri gert ráð fyrir neinum gangi í viðræðum. Eftir helgina birtist frétt í Austurglugganum austur á landi, frétt sem sagt var frá í Viðskiptablaðinu en hvergi annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Í endursögn Viðskiptablaðsins sagði
Frétt vikunnar birtist í Austurglugganum á sunnudag og sagði frá velheppnuðu öldungamóti í blaki austur á landi. Þrotlaust var leikið frá fimmtudegi til sunnudags, á Egilsstöðum, Seyðisfirði, í Fellabæ og Brúarási og þótti mótið fara hið besta fram. Hið fréttnæmasta var þó yfirlætislaus myndatexti, sem birtist ásamt mynd af þjóðþekktum keppanda: „Steingrímur J. Sigfússon er einn af öldungablökurum landsins og fastagestur á Öldungamótum. Hann lætur ekki ríkisstjórnarmyndun og aðrar annir aftra sér frá þátttöku.“ Neró lék á líru, en Steingrímur leikur blak. Þrotlaust. Hið merkilega er þó að enginn fjölmiðill sagði frá því við hvað Steingrímur hefði verið upptekinn þessa löngu helgi. |
Eins og áður sagði hefur Vefþjóðviljinn ekkert við það að athuga að Steingrímur J. fái frí og geti safnað kröftum. Raunar þykir blaðinu betra að vita af honum í réttum en röngum stað eins og þingi og ráðuneyti. En það sem er áhugavert í þessu litla máli er að enginn fjölmiðill segði höfuðborgarbúum frá því, þegar stjórnarmyndunarviðræður virtust að minnsta kosti nær liggja niðri, að formaður annars stjórnarflokksins hyrfi austur á land í nokkurra daga blakmót. Vill einhver ímynda sér hvort fjölmiðlum hefði þótt þetta áhugavert ef aðrir flokkar hefðu átt í hlut.
A nnars er óskandi að ekkert áríðandi kalli á Steingrím þessa daga þegar hann verður í göngum í heimabyggð sinni. Þar er nefnilega svo lélegt símasamband, eins og kom í ljós þegar frumvarp til eftirlaunalaga var lagt fram á sínum tíma. Þá náðist ekki í Steingrím dögum saman og fjölmiðlar létu sér nægja þá skýringu að hann væri fyrir norðan. Enn hafa þeir ekki sýnt því neinn áhuga hvað Steingrímur sjálfur bar úr býtum með samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“, en sem leiðtogi stjórnarandstöðuflokks fékk hann rúmlega 15 milljónir króna aukalega í laun, vegna samþykktar frumvarpsins, þann tíma sem hann var formaður vinstrigrænna utan ríkisstjórnar.