Í nýjasta tölublað Fiskifrétta, skrifar Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, skemmtilega grein, sem hann nefnir Dagbók af strandveiðum.
Segir hann þá frá fjórum veiðiferðum sem hann fór á trillunni Dagbjörtu RE10, í júlí og nú í ágúst.
Fyrsta dagbókarfærslan er frá 19. júlí. Afrakstur þess dags reyndist vera um 350 kg af fiski; 200 kg af þorski, 100 kg af karfa og afgangurinn héðan og þaðan. Um fengsæld sína segir Arthur: „Mér kom þægilega á óvart að við urðum varir við þorsk alls staðar þar sem við stungum færum. Hann tók hins vegar afspyrnu illa og við misstum nokkra fallega við borðstokkinn. Fiska með krókinn í blá kjaftvikinu. Flatarmálið sem við veiddum var agnarsmátt. Hafró heldur því fram að þorskstofninn sé óttalegur ræfill. Mikil var heppni okkar að hafa rennt á bletti þar sem enn var eitthvað eftir af honum.“
„…þegar við bætist nær algert gagnrýnisleysi fjölmiðlamanna þegar kemur að „fagmönnum“. Það er búið að masa það inn í hlustir manna að stjórnmálamenn séu spilltir og ef þá greini á við „fagmenn“ þá hljóti „fagmennirnir“ að vera þeir óspilltu og þeirra mat rétt, en stjórnmálamennirnir stjórnist af einhverju öðru.“ |
Önnur dagbókarfærsla er frá 26. júlí. Mörg ár eru frá því Arthur reri síðast og því segist hann ekkert kunna á miðin og vera óöruggur um hvað sé skynsamlegt. Ekki bregst þó veiðin og nú landar hann tæplega 450 kílógrömmum. „Þrátt fyrir að vera ókunnugur varð ég alls staðar var við þorsk – líka á ómerktum miðum. Á heimleiðinni þakkaði ég forsjóninni fyrir handleiðsluna, þar sem Hafró mælir þorskinn í lágmarki. Þvílík heppni!“
Þriðja færslan er frá 11. ágúst. Ekki gekk það verr. „Klippti á Baulurifið, rétt fyrir fallaskipti. Á rifinu sunnanverðu lóðaði klesst við botn, kviðbjörtum þorski, þónokkuð af aulum. En það var annað sem kom á óvart; hann var svo kjaftfullur af síli að sjórinn í kring um bátinn varð fljótlega í rekinu mettaður af hálfmeltu gumsi sem hnann ældi upp á drættinum. Á dekki voru stórir kögglar af síli, sumt stráheilt. Nú var heppni mín tvöföld. Ég hafði hitt á blett þar sem enn var til stórþorskur og í þokkabót síli. Samkvæmt fjölmörgum kenningum á sílið að vera því sem næst útdautt.“ Afrakstur þessa dags var rum 700 kílógrömm.
Fjórði róður var 19. ágúst og þá fékk Arthur félagsskap. „Fór upp að Kjalarnesi. Sigldi þar fram á þrjá risastóra beinhákarla. Einn þeirra renndi sér ítrekað svo nálægt að ég beið eftir höggi af ugga eða sporði. Þetta var undrunarefni. Samkvæmt fjölmörgum umhverfissamtökum eru hákarlar ýmist útdauðir eða í útrýmingarhættu. Mér þótti félagsskapurinn leiðinlegur, sérstaklega af hákarlinum sem elti mig fram og til baka. Sá var álíka langur og báturinn, um 8 metrar.“ Arthur ákvað að losa sig við fylgdina en var eltur upp í Hvalfjörð. „Á leiðinni lóðaði á risastórum torfum uppí sjó og hrafli við botn. Ég renndi og húkkaði tvo ágætis þorska, veika af makríláti. Þegar ég nálgaðist Baulurifið voru þar fyrir nokkrar hrefnur. Enn og aftur datt ég í lukkupottinn! Samkvæmt Greenpeace og mörgum öðrum „umhverfissamtökum“ er lítið eftir af hval í höfunum. Þar sem ég sigldi voru þær á bæði borð.“
Í greinarlok fer Arthur yfir fengsæld sína í róðrunum: Eftir að hafa farið yfir þessa ótrúlegu heppni mína, þar sem reynslan af stuttri útivist í Faxaflóa var öll á skjön við raunveruleikann sem Vísindakirkjan við Skúlagötu og alvitur umhverfissamtök hafa einkarétt á, hentist ég út í sjoppu og keypti miða í öllum helstu lottóunum og skafmiða að auki.“
Vefþjóðviljinn hefur á liðnum árum oft varað við fagmannadýrkun nútímans. Sú dýrkun verður alvarlegri en ella, þegar við bætist nær algert gagnrýnisleysi fjölmiðlamanna þegar kemur að „fagmönnum“. Það er búið að masa það inn í hlustir manna að stjórnmálamenn séu spilltir og ef þá greini á við „fagmenn“ þá hljóti „fagmennirnir“ að vera þeir óspilltu og þeirra mat rétt, en stjórnmálamennirnir stjórnist af einhverju öðru. Og þetta vita „fagmenn“ og geta óhikað gengið fram í nær algerri vissu um að hvorki fjölmiðlar, stjórnmálamenn né álitsgjafar muni nokkru sinni vefengja hinar „faglegu niðurstöður“ þeirra. Samkeppnisstofnun, skipulagsstofnun og hvað þeir heita allir eftirlitsaðilarnir og nefndirnar, þeir senda frá sér langar álitsgerðir, og vita að enginn mun fara yfir staðhæfingar þeirra gagnrýnum augum. Fréttamenn munu bara lesa upp niðurstöðuna og enginn „fagmannanna“ ber nokkra ábyrgð. Og enginn mun spyrja hvaða lýðræðislega umboð þeir hafi til ákvarðana sinna eða fullyrðinga.
Og dagbókarbrot Arthurs Bogasonar leiða huganna að mikilvægustu efnahagsákvörðun hvers árs – það er að segja þeirra ára sem alþingi ákveður ekki að gangast í hundruða milljarða króna ábyrgðir vegna skulda einkafyrirtækja – sem er ákvörðun um heildarafla næsta fiskveiðiárs. Hvenær fer einhver fjölmiðill gagnrýnum augum yfir ráðgjöf þeirra manna á Hafrannsóknarstofnun, manna sem sjaldnast eru einu sinni nafngreindir, og hvernig hún hefur reynst á liðnum árum?