Þ eir „fyrirvarar“ sem frést hefur að reynt sé að fá alþingismenn til að gera við frumvarp ríkisstjórnarinnar um Icesave-ánuðina eru gagnslausir og fráleitir. Ef að þeir, sem fram að þessu hafa látið eins og þeir beri hagsmuni hins almenna Íslendings fyrir brjósti, láta eins og þessir „fyrirvarar“ breyti nokkru, þá hefur allt þeirra tal verið hjómið eitt.
Framsóknarflokkurinn virðist átta sig á þessu. En hvað með Sjálfstæðisflokkinn? Ætli hann standi sig betur núna en í Evrópusambandsmálinu, þegar hann samþykkti skyndilega að ljúka allri umræðu og hleypa ríkisstjórninni í eina þumalskrúfu-atkvæðagreiðsluna enn? Þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafa verið töluvert mislagðar hendur undanfarna mánuði og forvitnilegt verður hversu lengi það stendur.
Og Ögmundur og þeir félagar hans innan vinstrigrænna sem hafa undanfarnar vikur látið eins og þeir hugsi í þessu máli um hag hins almenna manns. Renna þau öll sem eitt á afturendann og samþykkja málið með „fyrirvörum“ sem eru svo ómerkilegir að Jóhanna Sigurðardóttir reynir ekki einu sinni að fela að þeir séu allir „innan samningsins“?
R aunar er allt þetta fyrirvara-tal einn allsherjarmisskilningur. Alþingi fer með löggjafarvald en ekki framkvæmdavald. Það er ekki þess hlutverk að standa í samningaviðræðum með því að senda tilboð og gagntilboð til erlendra samninganefnda. Ef menn vilja semja við önnur ríki, þá fer það þannig fram að framkvæmdavaldið fer og semur, með fyrirvara um samþykki alþingis, og svo reynir á hvort alþingi samþykkir fyrir sitt leyti. Alþingi á að hafna samningi eða samþykkja hann, ekki gera „fyrirvara“.
Þeir þingmenn sem ætla að samþykkja „Icesave“-ánauðna „með fyrirvara“, misskilja þetta hlutverk sitt, eins og svo margt annað.
S umir telja að ríkisstjórnin ýki alla nauðsyn á því að Icesave-ánuðin verði samþykkt, vegna þess að forkólfar hennar séu í raun með hugann við allt annað mál, Samfylkingardrauminn um inngöngu í Evrópusambandið.
En ríkisstjórnin gæti hæglega eytt þeim efasemdum og fært þannig rök fyrir því að hún stýrðist af raunverulegu mati sínu á Icesave-málinu: Hún gæti boðist til að afturkalla umsóknina um aðild að Evrópusambandinu.
Er hún reiðubúin til þess?