F réttamenn hlaupa eftir næstum hvaða spuna Össurar Skarphéðinssonar sem er. Nú er byggð upp mikil spenna um það hvernig inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið „verður tekið“. Inngöngubeiðnum í sambandið er almennt tekið vel, þegar þær berast, og engin ástæða til að ímynda sér að öðru máli gegni um Ísland en önnur lönd. Svo hefjast viðræður um það hvernig Ísland myndi laga sig að reglum Evrópusambandsins, eða eins og það heitir í heimafrösunum hér, „hefjast viðræður um það hvað er í boði“.
Síðustu daga hefur utanríkisráðuneytið mjatlað út einni frétt á dag um að þetta eða hitt landið „styðji umsókn Íslands“. Enginn fréttamaður hefur enn séð ástæðu til að spyrja hvað í þeim frasa felist. Þýðir „stuðningur við umsókn Íslands“ að hlutaðeigandi ríki styðji það að Ísland fái varanlegar undanþágur frá grunnreglum sambandsins, eða þýðir þetta bara að einhver ráðuneytisstarfsmaður sendi hið hefðbundna svar, „nú já, gaman að heyra“? Það er raunar jafn staðlað svar og var hjá talsmönnum Byko og Húsasmiðjunnar þegar hinn opnaði stórverslun við hliðina á þeim. „Við fögnum samkeppninni“ kom þá eins og þrýst hefði verið á takka, án þess að nokkur einasti fjölmiðlamaður spyrði hvers vegna þeir gerðu það.
S líkum vandræðum er ríkisstjórnin í með Icesave-málið, að nú hefur þingfundum verið frestað. Og viðvaningarnir í stjórnarandstöðunni samþykktu að ljúka öllum öðrum málum, til að tryggja að engin pressa yrði á ríkisstjórninni. Fyrst samþykktu þeir að klára Evrópusambandsinngöngubeiðnina, þegar þeir sáu að Samfylkingin var búin að ýta „samstarfsmönnum“ sínum í vinstrigrænum upp að suðumarki, og nú semja þeir um að ljúka öllu öðru. Það er alger nauðsyn á því að icesave-ánauðinni verði ekki að ósekju varpað á landsmenn, en sérfræðingarnir í stjórnarandstöðunni gætu náð að klúðra því með látlausum vanmætti sínum.