S íðastliðið vor, þegar alþingismaðurinn Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í einni af nefndum alþingis, leyfði sér að óska frekari upplýsinga um helsta baráttumál þáverandi minnihlutastjórnar vinstriflokkanna, sem varð til þess að málið tafðist um einn fund í þingnefndinni, þá urðu helstu áhugamenn um frumvarpið viti sínu fjær. Úr þinghúsinu heyrðist frá forviða þingmönnum sem höfðu mætt náfölum og skjálfandi forsætisráðherra sem gólaði á þá sem á vegi ráðherrans urðu og þingfréttaritari Ríkissjónvarpsins, Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, var sem freðin er hún sagði frá hinni hræðilegu frestun málsins eins og skelfilegt áfall hefði riðið yfir heiminn. En þegar málið var afgreitt tók hún sem betur fór gleði sína á ný og ljómaði eins og tungl í fyllingu.
Í gærkvöldi birtist þetta aftur en að vísu í mjög smækkaðri mynd, enda ekki alveg sama hjartans mál Samfylkingarinnar og fréttastofunnar þá á ferð, þó vissulega þyki báðum það afar mikilvægt. Í síðkvöldsfréttum Ríkissjónvarpsins birtist alvarlegur Björn Malmquist og sagði frá því að þingsályktunartillaga um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði ekki verið afgreidd úr utanríkismálanefnd þá um kvöldið, eins og „allir“ hefðu þó gert ráð fyrir, þar sem að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, alþingismaður vinstrigrænna, hefði viljað fá frekari upplýsingar um málið.
Þetta var greinilega hið alvarlegasta mál. Björn Malmquist margsagði að einhverjir „allir“ hefðu gert ráð fyrir afgreiðslu málsins úr nefndinni í gærkvöldi og sagði í örvæntingu að „þetta mál [væri] náttúrlega í stjórnarsáttmála vinstrigrænna og Samfylkingar“ og sagði fréttamaðurinn að það hefði „eðlilega“ vakið „hörð viðbrögð hjá þingmönnum Samfylkingarinnar hérna á fundinum í kvöld að hún skyldi fara fram á þessar upplýsingar.“
Þó fréttamaður Ríkissjónvarpsins telji eðlilegt að það veki „hörð viðbrögð“ að þingmaður vinstrigrænna leyfi sér að biðja um upplýsingar á þingnefndarfundi, þá er nú ekki víst að slík viðbrögð séu jafn eðlileg og fréttamanninum finnst. Hafa þingmenn afsalað sér rétti sínum til að fjalla um og fá upplýsingar um þau þingmál sem koma frá ríkisstjórninni? Sé þingmáls getið í stjórnarsáttmála, mega alþingismenn þá ekki fjalla um þau í þingnefndum nema til að stimpla þau? Mega þeir ekki biðja um þær upplýsingar sem þeir telja sig þurfa? Fyrir nú utan það hversu Evrópusambandshótunin er málum blandin í stjórnarsáttmálanum, þar sem segir að utanríkisráðherra muni leggja fram þingsályktunartillögu um Evrópusambandsaðild, en enginn skuldbindur sig til að styðja inngönguna.
En fréttamanni Ríkisútvarpsins finnst „eðlilegt“ að ósk þingmanns vinstrigrænna um upplýsingar veki „hörð viðbrögð“ samstarfsflokksins. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn sat í ríkisstjórn voru fréttamenn mjög áhugasamir um það hvort samstarfsflokkar hans væru ekki „hækja“ í samstarfinu og kúgaðir af ofríki. Þegar Samfylkingin leiðir ríkisstjórn og ætlar að teyma landið til fullveldisafsals og ótrúlegra skuldaviðurkenninga, þá þykir fréttamönnum Ríkisútvarpsins hins vegar „eðlilegt“ að flokkurinn sýni „hörð viðbrögð“ ef stjórnarþingmaður greiðir ekki orðalaust atkvæði eins og honum er skipað.
Vinstriflokkarnir eru einmitt þeir sem mest tala um aukin áhrif þingsins, sem ekki megi vera „afgreiðslustofnun“ eða „stimpilpúði fyrir framkvæmdavaldið.“ Engir verða hins vegar reiðari þegar þingmenn vilja fá upplýsingar um þingmál. Þá heyrast nú ekki fögur orð um að þingmenn séu „aðeins bundnir við sannfæringu sína“, eða sýni „hugrekki“ með því að „brjótast undan flokksaga“. Og fréttamenn sjá ekkert athugavert við reiðina. Þá verða „hörð viðbrögð“ hin eðlilegustu.
Um helgina bjó Björn Malmquist til sérstaka frétt til þess að reyna að sýna fram á að Davíð Oddsson væri nú ósammála sjálfum sér, miðað við það sem hann hefði gert ári fyrr. Blasti þó við að ekkert tilefni var til þeirrar fréttar og fréttamaðurinn sleppti vísvitandi skýringum Davíðs á málinu, sem þó komu fram í því Morgunblaðsviðtali sem var tilefni skyndifréttarinnar.