Í slenskir listamenn eru komnir í hár saman. Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar ákvað á dögunum að útnefna konu nokkra, fatahönnuð að atvinnu, borgarlistamann. Svo vill hins vegar til að forseti Bandalags íslenskra listamanna og formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna eiga sæti sem áheyrnarfulltrúar í ráðinu, og bókuðu formennirnir báðir mótmæli við því að hönnuður fengi titil borgarlistamanns. Þessum mótmælum hafa svo fjölmargir þjóðkunnir og síður kunnir listamenn, þar á meðal nokkrir fyrrverandi borgarlistamenn, mótmælt og sagt þau til marks um smásálarhátt.
Annar upphaflegu mótmælendanna, Áslaug Thorlacius formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna, skrifaði grein í Morgunblaðið í fyrradag þar sem hún varði mótmæli sín og bætti því við að „fulltrúar stjórnmálaflokka sem tímabundið sitja í ráðinu (mannaskipti eru þar tíð, sumir sitja jafnvel aðeins einn fund) séu komnir langt út fyrir sitt þekkingarsvið með að skilgreina hvað sé list.“
Eins og ráða má af þessari grein Áslaugar er hér komið enn eitt dæmið, en raunar eitt þeirra saklausustu, um tilraunir „fagmanna“ til að ná til sín völdum af lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Listamönnum hefur verið veitt sérstök áheyrnaraðild að einni nefnda Reykjavíkurborgar og þegar þangað er komið telja þeir kjörna fulltrúa vera komna „langt út fyrir sitt þekkingarsvið“ þegar þeir taka að „skilgreina hvað sé list“.
Auðvitað er þetta saklaust dæmi, enda skiptir almenna borgara litlu raunverulegu máli hver er kallaður borgarlistamaður það og það árið. En það sem skiptir máli er hin samfellda sókn ókosinna fagmanna í þau völd sem réttilega eiga að vera hjá kjörnum fulltrúum. Vitaskuld vill Vefþjóðviljinn að hið opinbera sýsli í sem fæstu, en meginreglan hlýtur að vera sú, að ákvarðanir um meðferð opinbers valds séu í höndum manna sem hafa lýðræðislegt umboð en ekki ekki ókosinna „fagmanna“.
Margir eru óánægðir með hvernig stjórnmálamenn fara með það vald sem þeim er tímabundið falið. En þeim hefur þó verið falið það og þeir bera pólitíska ábyrgð gagnvart kjósendum. „Fagmennirnir“ hafa hins vegar ekkert umboð og þeir bera enga ábyrgð. Þeir eiga heldur enga pólitíska andstæðinga sem sitja um þá og ekki veita fjölmiðlar þeim neitt sérstakt aðhald heldur. Meðal annars þess vegna er í raun mun meiri hætta á að hjá „fagmönnunum“ grasseri klíkuskapur og spilling, en þegar stjórnmálamenn, sem vita sig undir smásjá bæði fjölmiðla og pólitískra andstæðinga, eiga í hlut. Þegar „fagmennirnir“ koma síðan saman í faglegum nefndum versnar enn í því, því þar ber enginn einn ábyrgð á neinu en hver og einn nefndarmaður getur skýlt sér á bak við allan hópinn. Hvenær efast fjölmiðlamenn til dæmis um niðurstöður samkeppnisstofnunar, samkeppnisráðs eða skipulagsstofnunar, svo örfá dæmi séu nefnd? Það er eins og fjölmiðlamenn haldi að „fagmenn“ séu ekki menn af holdi og blóði, séu ekki menn með eigin skoðanir á mönnum og málefnum, menn sem eigi sína vini og sína fjandmenn sem þeir kunna að vilja ná sér niðri á. Ef að fagmaður gefur álit sitt í nógu löngu máli þá halda fréttamenn jafnan að þeir séu með órækan sannleik í höndunum. Hefur einhver fréttamaður, einhvern tíma, lesið álit til dæmis samkeppnisstofnunar í einu einasta máli með gagnrýnu hugarfari? Sennilega enginn. Og það vita „fagmennirnir“ þegar þeir koma saman til að úrskurða, gefa álit eða skipta herfangi milli vina og kunningja.
Vinstrimenn margir hverjir, sem þó hafa jafnan uppi mörg og fögur orð um lýðræði, eru hinir heitustu talsmenn fagmannaræðis. Kannski þess vegna má í þessu sambandi vísa til gamals texta eftir háskólamann sem fjölmargir vinstrimenn höfðu mikið álit á. Í forspjalli sínu að íslenskri þýðingu Birtings Voltaires skrifaði Þorsteinn Gylfason meðal annars:
Löghyggjan og þýhyggjan lifa ekki aðeins í söguspekinni og þeim stjórnmálaskoðunum sem sækja rök sín til hennar. Þær lifa til að mynda líka með nokkrum hætti í jafn hversdagslegu fyrirbæri og hóflausri dýrkun samfélagsins á skólagengnu fólki, svonefndum sérfræðingum um allt sem heiti hefur. … Þegar alvaldir konungar og fáeinar höfðingjaættir stýrðu þjóðum Evrópu sá sú hugsjón dagsins ljós, til að mynda í ritum Voltaires, að þau lög ein skyldi setja hverri þjóð sem þjóðin vildi. Eftir að hinir háskólagengnu sérfræðingar hafa setzt að völdum virðist mega setja þjóðum heimsins öll þau lög sem þær sætta sig við. Sú stjórnskipan, sem ræðst af slíkri þýhyggju er stórum háskalegri en sú harðstjórn sem Voltaire reis gegn á 18tu öld. Krafa hinna eldri harðstjóra um alræðisvald helgaðist af ætterni þeirra og auðæfum. Krafa sérfræðinganna helgast af þekkingu þeirra og þjálfun. Því er þess að vænta að sérfræðingurinn sé stórum stærilátari en fyrirrennari hans á valdastóli. Hinir fyrri harðstjórar áttu hægt með að kannast við að þeim skjátlaðist oft, jafnvel að andstæðingar þeirra hefðu í einu og öllu á réttu að standa þótt þeir væru ættlausir og efnalitlir. En hvers er að vænta af mönnum sem telja sig hafa fundið vísindalega lausn á vandamálum þjóðfélagsins? Skyldu þeir ávallt eiga jafnauðvelt með að kannast við að þeim kunni að skjátlast? Er þess ekki fremur að vænta að þeir treysti þekkingu sinni og þjálfun til að leiða allan sannleikann í ljós í hverju máli? |
Þetta var skrifað árið 1975 og ekki hefur sérfræðingadýrkunin minnkað síðan. Nú kemur hún meðal annars fram í lotningu sumra fyrir því að í ríkisstjórn landsins sitji nú tveir ráðherrar sem ekkert pólitískt umboð hafa frá kjósendum og hafa opinberlega tekið því fjarri að þeir sjái ástæðu til að leita slíks umboðs, þó þeir sjái ekkert að því að fara ókosnir með pólitískt vald. Fréttamenn hafa ekki einu sinni spurt „ópólitísku ráðherrana“ hvort og þá hvað þeir hafi kosið í alþingiskosningunum í vor. Hinum saklausu fréttamönnum dettur sennilega ekki í hug að svo goðumlíkar verur sem „ópólitískir ráðherrar“ hafi tekið þátt í svo jarðneskri athöfn og alþingiskosningum, enda eru þær bara fyrir óhreina og dauðlega menn.
Og fyrst minnst er bæði á fréttamenn og fagmennsku. Á dögunum bauð Ríkisútvarpið í fleiri en einum fréttatíma, lesið af fleiri en einum fréttamanni, upp á svohljóðandi fróðleik:
Sjálfboðasveit Ulsters, sem er einn stærsti skæruliðahópur sambandssinna á Norður-Írlandi, segist hafa lagt niður vopn fyrir fullt og allt. Sambandssinnar berjast fyrir því að Norður-Írland verði áfram hluti af breska lýðveldinu. |
Ætli fréttastofa Ríkisútvarpsins sé ekki eina „fréttastofa“ veraldar, sem ræður yfir fleiri en einum fréttamanni, og auðvitað fréttastjóra eða vaktstjóra sem les fréttir yfir, sem ekki veit að Stóra-Bretland er konungdæmi? En til að gæta sanngirni þá er rétt að taka fram að í síðasta sinn sem fréttin var lesin, þá hikaði sá fréttamaður stutta stund þegar kom að breska lýðveldinu, en lét það svo flakka eftir stutta umhugsun.
Sennilega hefur hann raulað þjóðsönginn, God save the president, fyrir munni sér á leiðinni heim, Bretum og breska lýðveldinu til heiðurs.