L istahátíð fer nú fram í Reykjavík eins og ekki leynir sér. Þessar hátíðir hófust fyrir um fjörutíu árum og fyrstu áratugina voru þær haldnar annað hvert ár. En af því að ríki og sveitarfélög ákváðu nú mjög nýlega að sleppa fram af sér öllum beislum, líklega til að elta þá viðskiptamenn sem hæst flugu, var ákveðið, ofan á önnur útgjöld, að nú yrði að halda listahátíð árlega, með öllum tilkostnaði.
Stjórnvöld tala nú á hverjum degi um hversu skelfilega erfiðar ákvarðanir bíði þeirra við hvert fótmál. Nú verði allt skorið niður sem hægt sé að skera niður. Hefur einhver heyrt það nefnt að menn ætli að færa listahátíð þó ekki væri nema í það horf sem dugði áratugum saman; að vera „aðeins“ annað hvert ár?
Þ egar þing kom saman nú eftir kosningar, sögðu himinlifandi fréttamenn frá þeirri skemmtilegu tilviljun að sex manna forsætisnefnd alþingis væri einungis skipuð konum. Forseti alþingis og allir forsetar væru konur. Þetta þótti óskaplega skemmtilegt – og enginn velti fyrir sér rétttrúnaðinum, að ekki sé sagt niðurlægingunni við konur sem felst í því, ef flokkarnir hafa tekið sig saman um svona kosningu.
Daginn eftir voru fréttamenn ekki eins ánægðir. Þá var fyrsta frétt að árvökulir fréttamenn höfðu komist að því að í einhverjum fagnefndum þingsins væru kynjahlutföllin sennilega „ólögleg“. Þar „hallaði“ nefnilega „á konur“. Nú var ekkert skemmtilegt á ferð, heldur alvarleg lögbrot sem bálreiðir fréttamenn töldu stórmál.
Og fyrst minnst var á forsætisnefnd alþingis: Enn hefur enginn fréttamaður spurt hvaða aðili það hafi verið, sem afnam reglu um lágmarksklæðaburð þingmanna í þingsal. Skrifstofustjóri þingsins, sem er embættismaður, kynnti afnám reglunnar áður en þing kom saman og forsætisnefnd var kjörin. Samt spyr enginn fréttamaður, hver hafi tekið þessa ákvörðun.
ÞÞ egar vinstri-minnihlutastjórnin var mynduð í janúar létu tveir ráðherrar það verða sitt fyrsta verk að flæma tvo ráðuneytisstjóra í „leyfi“. Leyfin voru veitt til 30. apríl og handvaldir menn komu í þeirra stað. Enginn fréttamaður sá neitt athugavert við þetta og hefðbundnir álitsgjafar voru skyndilega ekki með upphrópanir um ógnarstjórn, þjóðfélag óttans og ófagmennsku.
Nú líður að lokum maí. Hefur einhver fréttamaður grennslast fyrir um það hvort ráðuneytisstjórarnir hafi snúið aftur úr „leyfi“ sínu? Eða eru fréttamenn kannski önnum kafnir við að leita að kynjahlutföllum þar sem „hallar á konur“?
B óksala Andríkis hefur ekki farið varhluta af auknum pólitískum áhuga landsmanna og hefur mjög gengið á upplag ýmissa rita sem þar eru í sölu. Er nú svo komið að Moskvulína Arnórs Hannibalssonar er með öllu uppseld, og Fjölmiðlar 2004 seldust sömuleiðis upp, en hún segir einmitt af hinu átakasama ári 2004, ári fjölmiðlalaga, forsetakosninga og fleiri slíkra mála. Nokkur eintök fengust hins vegar af bókinni hjá útgefanda á dögunum, og eru þau komin í Bóksöluna, en bókin mun nú með öllu uppseld hjá útgefanda.