Þ að virðast engin takmörk fyrir því hvað kostnaður skattgreiðenda vegna tónlistarhússins getur aukist. Í dag var upplýst að um 20 starfsmenn verktaka í gímaldinu eru á atvinnuleysisbótum. Ríkið greiðir verktökum fyrir vinnu við bygginguna og starfsmönnum þeirra jafnframt atvinnuleysisbætur. Öllu meiri verður ekki viðurkenningin á því að þetta er óarðbær atvinnubótavinna sem þarna fer fram. Nú á bara eftir að kanna hve margir eru í fæðingarorlofi og á listamannalaunum.
Tónlistarhúsið er eitt sýnilegasta dæmið á Íslandi um hvernig fer þegar mönnum er sleppt lausum með ábyrgð frá ríkinu upp á vasann. Þeir sem stóðu að byggingunni höfðu tryggt sér áskrift að 650 milljónum króna á ári frá ríki og borg til 35 ára. Bankarnir með ríkisábyrgð á innlánum, seðlabanka til þrautavara og yfirlýsingar stjórnmálamanna um að þeir yrðu ekki látnir sigla sinn sjó eru auðvitað stærri dæmi en ekki jafn dýrðlega sýnilegt og ferlíkið í fjöruborðinu.
Það hefur verið mikið látið með þá sem sagðir eru hafa ,,varað við“ stöðu bankanna. En hvenær er þeim hossað sem vöruðu við tónlistarhúsinu, fæðingarorlofinu, ríkisvæðingu stjórnmálaflokkanna, jarðgöngunum, fjölnota íþróttahúsunum og öllum hinum útgjöldum ríkis og sveitarfélaga sem efnt var til fyrir skyndilegar skatttekjur af ,,ofurlaununum“ og ,,græðgisvæðingunni“?
Á frýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að Bændasamtök Íslands hafi brotið samkeppnislög. Segir nefndin að samtökin hafi brotið gegn samkeppnislögum með aðgerðum sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum. Að þessu tilefni sektuðu samkeppnisyfirvöld ríkisins Bændasamtökin um 7,5 milljónir króna sem greiðast skulu í ríkissjóð. Þetta er refsing í lagi hjá samkeppnisyfirvöldunum. Það er alls óvíst að Bændasamtökin gætu greitt þessa sekt ef þau fengju ekki um 500 milljónir króna á ári úr ríkissjóði.