Laugardagur 9. maí 2009

129. tbl. 13. árg.

H inar talandi stéttir á Íslandi útmála nú íslenska atvinnurekendur sem mestu afglapa og skúrka veraldarsögunnar. Er það af sem áður var þegar  lofsöngurinn um víkingaeðlið og djörfungina hljómaði hvarvetna. En nú jafngildir það nánast ærumissi að hafa reynt fyrir sér í atvinnurekstri. Það er ekki beinlínis uppörvandi fyrir þá sem eru með hugmyndir að nýjum rekstri. Einmitt vegna þessa ástands hittir ný kvikmynd Sigurgeirs Orra Sigurgeirssonar, Alfreð Elíasson og Loftleiðir, beint í mark. Hún er kærkomin tilbreyting frá bölmóðinum og uppgjöfinni

Myndin, sem meðal annars er sýnd í Kringlubíói, segir frá einu mesta viðskiptaævintýri Íslendinga á síðustu öld. Loftleiðir hf. undir stjórn Alfreðs Elíassonar náðu miklum árangri í keppni við ríkisflugfélög Evrópuþjóðanna þótt stjórnvöld hér heima og víða erlendis reyndu að bregða fæti fyrir félagið. Hún ætti að vera þeim innblástur sem telja eðlilega margt mæla gegn þátttöku í atvinnurekstri um þessar mundir. Myndin sýnir einnig hve skammt getur verið á milli feigs og ófeigs í atvinnurekstri. Stundum koma upp aðstæður sem enginn ræður við hversu útsjónarsamir menn eru í rekstri. Stundum eru menn einfaldlega heppnir.

Í myndinni kemur glöggt fram hve ríkisafskipti hafa slæm áhrif á atvinnurekstur. Jafnvel lítt sýnilegar og að því er virðist sakleysislegar aðgerðir eins og ríkisábyrgðir geta haft mjög afdrifaríkar afleiðingar. Þetta er ekki síst mikilvægt að undirstrika um þessar mundir þegar íslenskir skattgreiðendur sitja uppi með ábyrgð á starfsemi íslensku bankanna.

V instriflokkarnir eru nú sagðir ekki koma sér saman um stefnu í Evrópumálum – sem þó var sögð frágangssök í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þrautalendingin er nú sögð vera að leggja málið bara í hendur þingsins, án þess að ríkisstjórnin sem slík hafi eina skoðun á málinu. Þetta reyna vinstrimenn að segja sérstaklega lýðræðislegt og gott, og til marks um aukin áhrif þingsins gegn framkvæmdavaldinu, og svo framvegis. Jájá. En vilja þeir þá nokkuð vera með stjórnarsáttmála? Er ekki rétt að vísa stóriðjumálum, skattamálum, ríkisútgjöldum og öðru bara til þingsins, þar sem ákvörðunarvaldið er auðvitað, og svo kemur bara í ljós hvað meirihluti þingmanna segir um hvert og eitt mál? Hvers vegna að vera yfirleitt með stjórnarsáttmála?

En ef það er nú einhver þörf á stjórnarsáttmála um sameiginlega stefnu í helstu málaflokkum, hver er þá raunveruleg ástæða þess ef hann á ekki að taka til þess máls sem annar stjórnarflokkurinn telur mikilvægast í heimi?

F urðulítil umræða hefur orðið um þá staðreynd að yfirkjörstjórnir í nokkrum kjördæmum sendu frá sér rangar upplýsingar um kosningaúrslitin í alþingiskosningunum. Breytingar á kjörseðlum, einkum með svokölluðum útstrikunum, eru hluti kosningaúrslita, eins og sást best af því að tveir nýkjörnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lækkuðu um sæti vegna útstrikana, og aðeins örfáum atkvæðum munaði að Össur Skarphéðinsson færi sömu leið. Yfirkjörstjórnir í sumum kjördæmum gáfu hins vegar út rangar upplýsingar um niðurstöður útstrikana, svo skeikaði hundruðum í sumum tilfellum.

Og hver var skýringin? Jú, landskjörstjórn hafði verið svo vinsamleg að útvega þeim tölvuforrit til að reikna útstrikanirnar, til að spara tíma. Og það var eins og við manninn mælt, að út komu kolrangar niðurstöður sem yfirkjörstjórnir tilkynntu landsmönnum svo í góðri trú.

Þetta hefur sætt furðulítilli umræðu. En það er rétt að halda þessu til haga, og rifja kannski upp, næst þegar einhver byrjar á reglulegu suði um „rafrænar kosningar“, sem séu víst nútíminn og þróunin, og vill með þeim stytta biðina eftir úrslitum um nokkrar klukkustundir.

Morgunblaðið, sem undantekningarlítið dettur niður á ranga afstöðu til mála, minntist þó á þetta mál í leiðara og sagði hér hafa orðið mannleg mistök sem enginn gæti amast við. Nei það gerðist nú ekki annað en að yfirkjörstjórnir sendu frá sér röng kosningaúrslit. Hver gæti amast við því?

Í fyrradag vakti Viðskiptablaðið athygli á öðru sem farið hafði fram hjá mörgum. Í fjölmiðlapistli Andrésar Magnússonar sagði:

Frétt vikunnar birtist í Austurglugganum á sunnudag og sagði frá velheppnuðu öldungamóti í blaki austur á landi. Þrotlaust var leikið frá fimmtudegi til sunnudags, á Egilsstöðum, Seyðisfirði, í Fellabæ og Brúarási og þótti mótið fara hið besta fram. Hið fréttnæmasta var þó yfirlætislaus myndatexti, sem birtist ásamt mynd af þjóðþekktum keppanda: „Steingrímur J. Sigfússon er ein af öldungablökurum landsins og fastagestur á Öldungamótum. Hann lætur ekki ríkisstjórnarmyndun og aðrar annir aftra sér frá þátttöku.“
Neró lék á líru, en Steingrímur leikur blak. Þrotlaust. Hið merkilega er þó að enginn fjölmiðill sagði frá því við hvað Steingrímur hefði verið upptekinn þessa löngu helgi.