Föstudagur 8. maí 2009

128. tbl. 13. árg.
Stjórnmálamaður sem hefur tekið upp þá útgáfu af reglu Keynes, að til langs tíma litið séum við öll dottin út af þingi, – kann að láta sig minnstu varða þótt vel heppnuð lækning hans á atvinnuleysi hljóti að framkalla meira atvinnuleysi þegar fram líða stundir. Þeir sem fá skammirnar, verða ekki þeir stjórnmálamenn sem komu verðbólgunni af stað heldur þeir sem stöðvuðu hana. Það er ekki til verri sjálfhelda fyrir lýðræðisríki, en sú þegar yfirvöld neyðast til að ganga fram á grundvelli annarlegra sjónarmiða sem fólk telur vera rétt. Eina von okkar nú, um stöðuga peninga, er einmitt sú að finna leið til að vernda þá fyrir pólitík.

Ef frá er talið tvö hundruð ára tímabil gullfótarins, hafa næstum allar ríkisstjórnir sögunnar notað einkarétt sinn á peningaútgáfu til að blekkja og hafa fé af þegnum sínum. Og á meðan fólk á ekki annars úrkosti en að nota þá peninga sem yfirvöld láta í té – er síst meiri ástæða en fyrrum til að ætla að ríkisstjórnir verði áreiðanlegri. Við ríkjandi stjórnarfar, sem á að markast af óskum meirihlutans, en þar sem sæmilega stór hópur getur í reynd skapað ríkisstjórninni „pólitíska nauðsyn,“ með því að hóta að neita henni um þau atkvæði sem hún þarf til meirihluta – getum við ekki treyst yfirvöldum fyrir hættulegum tækjum. Sem betur fer held ég við þurfum enn ekki að óttast að yfirvöld ráðist í styrjöld, til að gera ómissandi hópi kjósenda til hæfis, en peningar eru vissulega of hættulegur hlutur til að vera háðir geðþótta stjórnmálamanna – eða hagfræðinga, að því er virðist.

– Friedrich August von Hayek, Frelsi í peningamálum, 1976.

Í dag eru liðin 110 ár frá fæðingu Friedrich August von Hayeks. Eins og Vefþjóðviljinn vék að í gær hafa kenningar Hayeks og annarra austurrískra hagfræðinga sjaldan átt betur við en einmitt nú þegar hin opinbera peningamálastjórn er í upplausn víða um lönd. Peningar eru of hættulegir til að vera háðir geðþótta stjórnmálamanna. Vilji menn eiga von um áreiðanlega peninga er nauðsynlegt að finna leið til að vernda þá fyrir pólitík. Í seðlaprentunarvaldinu felst of mikil freisting fyrir stjórnvöld. Það er freistandi að setja prentvélarnar af stað fyrir kosningar, lækka vexti hressilega, koma hjólum atvinnulífsins af stað og útrýma atvinnuleysi. Þessi ráð senda röng skilaboð um allt hagkerfið, ekki síst til fyrirtækja sem þurfa að taka ákvarðanir um langtímafjárfestingar; til dæmis í nýjum verksmiðjum eða byggingu íbúðarhúsnæðis. Afleiðingum hins ódýra fjármagns, lánabólunnar, hafa fáir kynnst betur en þeir sem eru uppi nú um stundir.

Hayek er þó langt í frá kunnastur fyrir skrif sín um peningamál. Þegar öld var liðin frá fæðingu Hayeks sagði Vefþjóðvilinn frá megin stefum í kenningum hans með þessum orðum:

Rauði þráðurinn í skrifum Hayeks er takmörk þekkingar manna og hvernig mennirnir geta best lifað í félagi við hvern annan að gefnum þeim takmörkunum sem þekkingin setur. Þennan áhuga Hayeks á takmörkunum þekkingar má rekja til afskipta hans af deilunni um altækan áætlunarbúskap, en kommúnistar og þjóðernis sósíalistar boðuðu á fyrri hluta aldarinnar að í stað markaðsbúskapar skyldi ríkið með áætlunarráðum sínum segja til um hver skyldi framleiða hvað og til hverra afraksturinn skyldi renna. Vinur Hayeks og vinnufélagi Ludwig von Mises greiddi þessari hugmynd fræðilegt náðarhögg með ritgerð árið 1920 þar sem hann benti á að slíkt ráð gæti ekki stuðst við verð og því gætu áætlanirnar ekki haft neitt sameiginlegt viðmið.

Í dag eru þessi rök almennt viðurkennd en því miður lifði Mises ekki að sjá þann dag, hann lést árið 1973 svo gott sem gleymdur. Þetta innsæi varð Hayek efniviður í skrif um bæði hagfræði og stjórnmál sem síðar hefur orðið grunnur fyrir fjölda annara fræðimanna til að bregða ljósi á hin ýmsu viðfangefni. Í ritgerð sinni Economics and Knowledge frá árinu 1933, komst Hayek svo að orði: „Við þurfum að rannsaka viðfangsefni sem kalla má verkaskiptingu þekkingarinnar sem er sambærilegt við verkaskiptingu vinnunar. Þótt hið síðarnefnda hafi verið megin viðfangsefni hagfræðinnar frá upphafi hefur hinu fyrra ekki verið sinnt þó mér virðist það vera megin viðfangsefni hagfræðinnar sem félagsvísinda. Vandamálið sem við reynum að leysa er hvernig sjálfsprottin samskipti fjölda manna, sem hver um sig býr yfir takmarkaðri þekkingu, leiðir til niðurstöðu … sem einungis hefði verið hægt að koma vísvitandi á af einhverjum sem byggi yfir samanlagðri þekkingu allra einstaklinganna.“ Það sem Hayek vísar til í þessarri málsgrein er hvernig t.a.m. verð í markaðsviðskiptum fela í sér skilaboð, þannig segir t.d. verð á kaffi okkur til um framboð og eftirspurn á kaffi á hverjum tíma án þess að fara þurfi út í neyslumynstur neytenda eða veður og uppskeru hjá framleiðendum. Og það var einmitt slík þekking sem Ludwig von Mises benti á að áætlunarráð ríkisins gætu ekki stuðst við. Það neitar því enginn að áætlunarráð geti valið sér eitthvert viðmið og hámarkað það, en þar sem verð er samnefnari allra þeirra þátta sem áhrif hafa á framleiðslu og eftirspurn leiðir það til skynsamlegustu niðurstöðu.

Í Leiðinni til ánauðar benti Hayek á að ef ríkið ætlar að ákveða hvernig framleiðslunni er hagað, er því ekki nóg að ráða framleiðslunni, þ.e. framboðinu, heldur verður það einnig að stýra eftirspurninni. Eða eins og nútíma hagfræðingar myndu líkast til kalla það, þá verður ríkið að þjóðnýta nytjaföll manna. Því getur ríki sem ætlar að stýra framleiðslunni ekki unnt mönnum frelsis ef það ætlar að stilla saman strengi framboðs og eftirspurnar.

Upplýsingagildi verðs er ekki einungis rök gegn altækum áætlunarbúskap heldur afskiptum ríkisins af atvinnulífinu almennt. Lærdómurinn sem Hayek dregur af því er að ætli menn að grípa til afskipta beri að haga þeim þannig að þau séu sem almennust og hafi sem minnst áhrif á verðmyndum. Í bók sinni The Constitution of Liberty segir hann: „Það er fremur eðli ríkisafskipta en umfang þeirra sem skiptir máli. Starfhæfur markaður gerir ráð fyrir ákveðnum athöfnum af hálfu ríkisins … þar af leiðir, að ríkisstjórn sem er tiltölulega afskiptalítil, en gerir ranga hluti, getur gert meira ógagn, en tiltölulega virk ríkisstjórn sem heldur sig við að hlúa að sjálfsprottnu skipulagi.“

Hayek aðhylltist skipulag einstaklingsfrelsis og séreignarréttar því það gefur sem flestum tækifæri til að reyna fyrir sér, þroska einstæða hæfileika sína með því að reka sig á og sigrast á erfiðleikum. Í The Constitution of Liberty segir hann: „Framþróun er hreyfing fyrir hreyfingarinnar sakir, því það er með því að læra af afleiðingum gjörða sinna sem maðurinn nýtur ávaxta greindar sinnar.“