Fimmtudagur 7. maí 2009

127. tbl. 13. árg.
Credit expansion is the governments’ foremost tool in their struggle against the market economy. In their hands it is the magic wand designed to conjure away the scarcity of capital goods, to lower the rate of interest or to abolish it altogether, to finance lavish government spending, to expropriate the capitalists, to contrive everlasting booms, and to make everybody prosperous.
– Ludwig von Mises, Human Action, 1949, bls. 793.

Mises og Hayek. Austurrísku hagfræðingarnir hafa sjaldan átt brýnna erindi en nú þegar miðstýrð peningamál heimsins hafa siglt hagkerfum í strand.
Mises og Hayek. Austurrísku hagfræðingarnir hafa sjaldan átt brýnna erindi en nú þegar miðstýrð peningamál heimsins hafa siglt hagkerfum í strand.

Þótt sá hluti hagfræðinnar sem kenndur er við Austurríki hafi eignast áhrifamikinn Nóbelsverðlaunahafa í greininni fyrir rúmum þremur áratugum verður ekki sagt að austurríska hagfræðin hafi notið almennrar hylli í hagfræðideildum háskólanna eða kennslubókum í fræðunum. Ein ástæða er vafalaust sú að hagfræðin hefur almennt orðið fórnarlamb tækninnar. Hagfræðingar hafa undanfarna áratugi haft meiri áhuga á því að reikna en hugsa. Nóbelsverðalaunahafi Austurríkismanna F. A. Hayek varaði hins vegar sérstaklega við þeirri tilhneigingu að aðferðir raunvísindanna væru notaðar í hugvísindum eins og hagfræðin ætti að teljast. Hayek skrifaði meira að segja heila bók um þá óheillaþróun, The Counter-Revolution of Science. Það er varasamt að færa aðferðir raunvísindanna yfir í hugvísindin og vænta sama árangurs. Vilja einstaklingsins verður ekki lýst með reiknilíkani eða grafi. Hann er ekki reikistjarna á fyrirsjáanlegri braut. Um þetta snýst einmitt eitt meginrita austurrísku hagræðinnar Human Action eftir Ludwig von Mises. Ef menn missa sjónar af vilja einstaklingsins – og það er mjög auðvelt í reiknihagfræði nútímans – er engin leið að komast að skynsamlegri niðurstöðu í efnahagsmálum. Human Action er nær þúsund síður af hagfræði, hvorki formúlur né gröf.

Eftir að fjármálakerfi heimsins, sem byggð eru á peningamálastjórn ríkisins og mjög nánu samstarfi ríkisins og fjármálafyrirtækja, hafa orðið fyrir jafn alvarlegu áfalli og raun ber vitni á liðnum vetri væri ekki alveg galið þótt helstu gagnrýnendur þessa mislukkaða kerfis njóti aukins áhuga. Engir hafa gagnrýnt seðlaprentunarvald og samtryggingu ríkis og fjármálafyrirtækja af meira kappi en austurrísku hagfræðingarnir. Þeir gerðu það fyrir Kreppuna miklu og þeir gerðu það fyrir krísuna á síðasta ári. Rökin eru alltaf þau sömu. Seðlaprentun, lágir vextir og ríkisútgjöld örva efnahagslífið ef til vill um skamma stund. Fyrr en síðar kemur engu að síður í ljós að fjárfestingar eru gerðar á fölskum forsendum, ríkið hefur afvegaleitt fyrirtækin með niðursettum vöxtum og ríkisútgjöldum. Bólan springur og fyrirtæki og heimili fara í þrot. Það næsta sem gerist er að stjórnvöldin sem kveiktu eldinn bjóða mönnum að dusta af sér öskuna og orna sér við næsta eld. Sem þau hafa kveikt með seðlaprentun, lágum vöxtum og ríkisútgjöldum.