Ég veit ekki betur en að nú séu hvergi til í landinu 90% lán eftir að Íbúðalánasjóður lækkaði lánshlutfallið niður í 80%. Í raun og veru er þetta stórt skref til fortíðar að því leytinu til að nú er hámarkslánshlutfall á íbúðalánamarkaði orðið lægra en það var þegar bankarnir gáfu fyrirheit og loforð um nútímalegan fasteignamarkað. |
– Björn Þorri Viktorsson formaður Félags fasteignasala gagnrýndi lækkandi lánshlutföll til íbúðalánakaupa í júní 2006. |
K
Hverjir kröfðust 90% lána handa öllum? Framsóknarflokkurinn og Félag fasteignsala. Hverjir bjóðast nú til að bjarga fólki úr 90% ruglinu? Framsóknarflokkurinn og fyrrum formaður Félags fasteignasala. |
reppur hafa alltaf verið frjósamur jarðvegur fyrir lýðskrum og loddara. Þegar harðnar á dalnum gefa stóryrtir kraftaverkamenn sig fram sem aldrei fyrr, steyta hnefann og heita á stjórnvöld að hrista nú lausn á hvers mann vanda fram úr erminni.
Um þessar mundir ber mest á framsóknarmönnum með slíka tilburði. Framsóknarmenn hafa nýverið áttað sig á því að vinstri flokkarnir litu ekki á Framsóknarflokkinn sem fótþurrku til framtíðar heldur sem einnota dyramottu á leið inn í stjórnarráðið.
Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi fór Björn Þorri Viktorsson fyrrverandi formaður Félags fasteignasala til að mynda mikinn um vanda heimilanna vegna fasteignalána.
Björn Þorri krafðist þess í raun að ríkisbankarnir afskrifuðu fasteignalán í stórum stíl því eigið fé margra fasteignaeigenda væri skyndilega orðið neikvætt. Hann bætti því svo við sem rökstuðningi að ríkið hefði nú þegar tekið á sig svo mikið af rugli á sig að það væri allt eins hægt að bæta þessu við. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra, sem einnig var gestur Kastljóssins, mátti hafa sig allan við að leiðrétta Björn Þorra og benda á einfaldar staðreyndir eins og fasteignalán væru til langs tíma og tímabundnar sveiflur í fasteignaverði gætu ekki verið grundvöllur að niðurfellingu skulda. Gylfi benti einnig á að það hefði verið óvarlegt af bæði lánastofnunum og íbúakaupendum að veita og taka lán í erlendri mynt án þess að lántakendur hefðu tekjur eða aðrar eignir í sömu mynt.
Það er út af fyrir sig ekkert við því að segja að Björn Þorri fari milli þátta í Ríkissjónvarpinu með þessi stóryrði sín og kraftaverkalækningar. En hvernig væri þá að fréttamenn spyrðu hann hvort hann muni eftir þessum formanni Félags fasteignasala sem hvatti bæði Íbúðalánasjóð ríkisins og bankana til að lána íbúðakaupaendum sem mest þegar verðið á íbúðarhúsnæði var sem hæst? Hvaða félagsskapur var það sem grenjaði úr sér augun í hvert sinn sem einhver ætlaði að hafa örlítið borð fyrir báru í fasteignaviðskiptum á Íslandi á síðustu árum? Hvaða klúbbur eggjaði stórvöld í sífellu að hækka nú lánshlutföllin hjá Íbúðalánasjóði svo halda mætti heitu lofti í fasteignabólunni?
Hvaða ráðgjöf veittu fasteignasalar fólki eiginlega um fjármögnun íbúðakaupa?