Eins og margir muna voru hagsmunir Baugs og Norðurljósa helsta kosningamál Samfylkingarinnar í síðustu þingkosningum enda trúir margt félagshyggjufólk því að Jóhannes í Bónus sé á einhvern hátt sá sem mest hafi gert fyrir fólk í landinu. |
– Katrín Jakobsdóttir, 25. september 2005, endurbirt í Múrbroti, Reykjavík 2008, ritstjórar Ármann Jakobsson og Finnur Dellsén, bls. 59. |
N ei, það er ekki langt síðan þáverandi og núverandi varaformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sagði að hagsmunir fjölmiðlasamsteypunnar Norðurljósa og stórmarkaðakeðjunnar Bónuss hefðu verið helsta kosningamál Samfylkingarinnar. Engu að síður dettur engum fjölmiðlamanni í að spyrja hana nánar um þessi orð hennar. Í hverju þetta hafi komið fram og svo ekki síður hvort hún telji að Samfylkingin hafi hætt að setja hagsmuni þessara fyrirtækja á oddinn og þá hvenær. Væru slíkar spurningar þó ekki síður áhugaverðar nú en áður, nú þegar varaformaðurinn vinnur hörðum höndum að því að tryggja að Samfylkingin hafi tögl og hagldir við ríkisstjórnarborðið á næstu árum.
F jölmiðlar hella vitleysunni yfir fólk og er lítið lát á. Fréttamenn, álitsgjafar, blaðamenn og viðmælendur, hika ekki við að fullyrða alls kyns fjarstæður og undir því sitja saklausir áhorfendur og lesendur dag eftir dag. Og er þá ekki minnst á „bloggið“, sem hefur fært opinbera umræðu á Íslandi langt niður, á örskömmum tíma. Fullyrðingar streyma úr öllum áttum, og sá sem ætlaði að leiðrétta þó ekki væri nema helstu beinar rangfærslur, gerði ekki annað og hefði samt varla undan.
Í gær birti Morgunblaðið viðtal við Þórhall Sigurðsson leikstjóra, og eins og margir vinstrimenn hefur hann ýmsar fróðlegar hugmyndir um lífið og tilveruna. Þannig vefst það ekki fyrir Þórhalli hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hafi stýrt Reykjavíkurborg áratugum saman. Það var auðvitað ekki vegna fylgis flokksins meðal borgarbúa heldur vegna samstöðuleysis vinstrimanna. Eða eins og Þórhallur fullyrðir hikstalaust við þá lesendur Morgunblaðsins sem eftir eru: „Þetta fólk hélt Sjálfstæðisflokknum við völd í Reykjavík, ásamt því að hinir flokkarnir voru sundurlyndir. Það er nefnilega staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn náði aldrei 50% fylgi í Reykjavík, en var samt með meirihluta, því hinir flokkarnir voru sundraðir.“
Já það er „nefnilega staðreynd“ fullyrðir Þórhallur blákalt í viðtalinu. Raunar er staðreyndin sú, að frá því Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929 og þar til flokkurinn fékk meira en 60% atkvæða undir forystu Davíðs Oddssonar í borgarstjórnarkosningum árið 1990, gerðist það beinlínis oftar en ekki að flokkurinn fékk meira en 50% atkvæða í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík. Alls gerðist það níu sinnum á þessum tíma að Sjálfstæðisflokkurinn fékk meira en 50% gildra atkvæða í Reykjavík. Eða nánar tiltekið: árið 1930 fékk hann 53%, 1938 54,7%, 1950 58,8%, 1958 57,7%, 1962 52,8%, 1974 57,8%, 1982 52,5%, 1986 52,7% og 1990 60,4%. Eða eins og Þórhallur Sigurðsson fræðir lesendur Morgunblaðsins: „Það er nefnilega staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn náði aldrei 50% fylgi í Reykjavík.“
Má Vefþjóðviljinn leggja það til, að næst þegar Morgunblaðið vill fara til Þórhalls Sigurðssonar eftir staðreyndum, að blaðið reyni þá Ladda frekar.