N okkuð ljóst er nú, um hvað kosningarnar eftir rúma viku munu í raun snúast:
Vinstriflokkarnir, einkum vinstrigrænir og Jóhanna Sigurðardóttir, hafa lengi verið í raun mjög andvíg því að fólk hafi sæmilegar tekjur. Er raunar oft eins og þau ímyndi sér að fylgi þeirra sjálfra sé einkum meðal láglaunafólks, og því þurfi að gæta þess að fólk eigi ekki of auðvelt með að komast úr lágum tekjum upp í millitekjur eða þar fyrir ofan.
Vinstrimenn munu eftir kosningar, ef þeir fá til þess fylgi, reyna að jafna um millitekjufólk og alla þar fyrir ofan. Þeir eru mjög greinilega þegar byrjaðir að leggja grunninn að því að ná fram þeim gamla draumi sínum. Hvernig gera þeir það? Nú tala þeir mjög um það að „tími ofurlaunanna“ sé liðinn. Nýta þeir sér þannig, með ósvífnum hætti, að á síðustu árum var svolítill hópur manna sem barst mjög á og hafði gríðarlega há laun, einstaka maður milljónatugi á mánuði. Afar mörgum blöskraði slík launakjör. Í því ljósi kinka margir kolli þegar „réttlátir“ og reiðir stjórnmálamenn tala gegn „ofurlaunum“.
Málið er hins vegar það, að Jóhanna, Steingrímur og félagar, eru ekki á leiðinni í stríð við nein margmilljóna „ofurlaun“. Þau eru ekki til lengur. Launin sem þau ætla að lækka eru hjá fólki sem í dag fær um 300-600 þúsund krónur á mánuði, fyrir skatt. Og ofan á launalækkanir ætla þau sér að hækka verulega skatta á þetta sama fólk. Á sjónvarpsfundi í gærkvöldi sagði Steingrímur J. Sigfússon að hann vildi launalækkanir þeirra sem væru með laun yfir 250-300 þúsund krónur á mánuði. Þegar ríkisvaldið mun verða búið að ganga á undan með slíkum launalækkunum munu mörg einkafyrirtæki fylgja í kjölfarið. Steingrímur mun glaðbeittur tala um „lífskjarajöfnun“ og Jóhanna um „réttlæti“.
Vinstrimenn munu ná sínum langþráða draumi um almennar launalækkanir millitekjufólks. Og hvers vegna mun það gerast? Jú, vegna þess að allt of margt venjulegt fólk mun sitja heima í kosningunum eða skila auðu, vegna pirrings eða óánægju með eitt og annað klúður borgaralegu flokkanna á síðustu árum.
Vissulega hafa borgaralegu flokkarnir klúðrað ýmsu. Vefþjóðviljinn hefur oft verið ævareiður yfir vesaldómi þeirra og undanlátsemi. En það er galið að láta réttmætan og eðlilegan pirring og reiði yfir því, verða til þess að menn hleypi hér til valda í fjögur ár, ofstækisfyllstu vinstristjórn sem nokkurn tíma hefur vofað yfir landsmönnum.