F lest boð og bönn um siðferðileg málefni leiða til meiri hnignunar en þeim er ætlað að hindra. Bann við vændi rekur þá starfsemi niður í miskunnarlausa undirheimana þar sem vændiskonan á litla möguleika á aðstoð yfirvalda ef á henni er brotið. Áfengisbannið á fyrri hluta síðustu aldar varð helsta tekjulind og undirstaða skipulagðra glæpasamtaka sem notuðu tekjur sínar af ólöglegri áfengissölu til að fjármagna aðra glæpastarfsemi. Bann við fíkniefnum nú um stundir leiðir ekki aðeins ómælt tjón yfir fíklana vegna óvissu um skammtastærðir og þynningarefni heldur einnig yfir óviðkomandi fólk sem verður fyrir ofbeldi og ránum fíkla sem þurfa pening í skyndi fyrir næsta fixi. Fíkniefnabannið hækkar verð á efnunum og gerir ræktun og framleiðslu þeirra í Asíu og Suður-Ameríku að meiriháttar tekjulind skæruliðasveita og glæpasamtaka sem eru mörg hver svo öflug að þau ögra hiklaust lögreglu og her og valda skelfingu og glundroða.
Þetta eru nokkur af hinum praktísku rökum gegn lögum um siðferðismál.
Fáir hafa hins vegar gert því betri skil en Lysander Spooner í riti sínu Löstur er ekki glæpur að ríkisvaldið getur ekki haft rétt til að beita valdi sínu í siðferðilegum efnum af þessu tagi. Enginn einstaklingur hefur það vald yfir öðrum að geta bannað honum að reykja, drekka, dópa eða leggja undir. Ríkið þiggur vald sitt frá einstaklingunum sem mynda það. Hvaðan þiggur ríkið vald til að banna manni að kveikja sér í jónu eða fækka fötum gegn greiðslu? Enginn hefur slíkt vald yfir nágranna sínum og því kemst Spooner að þeirri niðurstöðu að ríkið geti ekki heldur tekið sér það. Ríkið geti aðeins tekið sér vald eins og hindra og refsa fyrir ofbeldi og eignaspjöll því allir menn hafi rétt til sjálfvarnar og geti framselt það vald ríkinu, líkt og gert er í flestum samfélögum.
Spooner kýs að kalla það löst sem ríkið getur ekki með rétti skipt sér af en glæp sem það getur beitt sér gegn.
Spooner segir því markmiðið með refsingum fyrir löst andstætt markmiðinu með því að refsa fyrir glæpi. Með refsingum fyrir glæpi sé verið að vernda frelsi manna fyrir átroðningi annarra. Með refsingum eða afskiptum af löstum sé hins vegar einmitt verið að troða á mönnum:
Markmiðið með refsingu fyrir glæpi er því ekki aðeins að öllu leyti annað en með refsingu fyrir lesti heldur í algjörri andstöðu við það. Markmið með refsingu fyrir glæpi er að tryggja öllum á sama hátt eins mikið frelsi og mögulegt er – í samræmi við jafnan rétt annarra – til að leita eigin hamingju undir leiðsögn eigin dómgreindar og með nýtingu eigin eigna. Markmiðið með refsingu fyrir lesti er hins vegar að svipta alla menn meðfæddum rétti og frelsi til þess að leita eftir hamingju að eigin hyggjuviti og með nýtingu eigin eigna. Þessi tvö markmið eru því algjörar andstæður. |
Hvergi er ruglað jafn mikið með þessa tvö hluti, löst og glæp, og í umræðum um klám og nekt. Þar hræra menn vísvitandi saman löstum og glæpum í þeim tilgangi að fá allt bannað.
Ástæðan fyrir því að Vefþjóðviljinn minnist á þessi sjónarmið nú um páskana er að eftir nokkra daga verður að öllum líkindum komin vinstri stjórn í landinu með þingmeirihluta sér til fulltingis. Hún mun ekki starfa í 80 daga og þurfa að ómaka sig á því að þurrka reglulega af fótunum á Framsóknarflokknum líkt og minnihlutastjórnin sem nú situr. Nei hún mun hafa meirihlutaumboð í 1460 daga.
Meðal þess sem vinstri stjórnin mun án efa beita sér fyrir eru alls kyns boð og bönn um siðferðileg efni. Sýnishorn af því hafa verið að skjóta upp kollinum í þinginu undanfarin ár sem þingmál liðsmanna vinstri flokkanna.