Þ etta mál er ekki hægt að haardera.
Vefþjóðviljinn fór yfir það á dögunum hvaða afleiðingar vinnubrögð forystu Sjálfstæðisflokksins á undanförnum misserum höfðu fyrir hugmyndafræðilega vígstöðu flokksins. Þar var nefnt að síðustu verk forystunnar voru annars vegar að boða til Evrópusambandslandsfundar að kröfu formanns Samfylkingarinnar. Hins vegar stýrði forystan því af öryggi um síðustu áramót að allir þingmenn flokksins samþykktu hækkun á tekjuskatti einstaklinga.
En það er ekki nóg með að forystan hafi varpað flestum stefnumálum flokksins fyrir róða. Hún virðist gjörsamlega hafa tapað áttum í innra starfi flokksins.
Forystan tók þátt í því í desember 2006 að setja sjálfum sér og öðrum lög þar sem stjórnmálaflokkum var bannað að þiggja meira en 300 þúsund krónur á ári frá lögaðilum. Hún hlýtur að hafa gert sér grein fyrir að það væri vart boðlegt að þiggja nokkrum dögum síðar hundraðfalt slíkt framlag frá einu fyrirtæki í flokksjóðinn og annað litlu lægra frá öðru fyrirtæki. Það var vissulega ekki ólöglegt því lögin áttu ekki að taka gildi fyrr en um áramót. En það er ekkert nema hræsni að setja slík lög og ganga síðan gegn efni þeirra af þvílíku offorsi.
Nýkjörin forysta Sjálfstæðisflokksins verður að sýna mikla festu í þessu máli til að það stórskaði ekki flokkinn í kosningunum eftir tvær vikur. Þótt málið sé óþægilegt er það líka tækifæri til að sýna almenningi að kaflaskil hafi orðið í starfi flokksins. En tíminn líður.
- Eins og við var að búast hafa vinstripennar farið mikinn í dag og talað um mútur vegna þessara styrkja. Ekki er þá nema tímaspursmál hvenær fréttastofa Ríkisútvarpsins fylgir lit og reynir, beint eða undir rós, að tengja styrkveitingarnar við einhver þekkt mál úr stjórnmálalífinu, svo sem REI-málið. Og það væri varla hægt að lá þeim það. Það er einmitt vegna þess að óvenjulega háir einstakir styrkir af þessu tagi eru verulega til þess fallnir að vekja tortryggni, að ekki sé meira, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði sett sér reglu um hæstu mögulegu fjárhæð sem hann tæki við frá hverjum einum styrkveitanda. Hér virðist þáverandi forysta flokksins, eða einhver hluti hennar eða í hennar umboði, hafa ákveðið að taka við tveimur styrkjum sem samanlagt nema átjánfaldri þeirri fjárhæð. Það var ótrúlegt dómgreindarleysi.
- Sem betur fer, hefur ekkert komið fram enn sem bendir til þess að styrkveitendur hafi fengið neitt sérstakt fyrir snúð sinn frá Sjálfstæðisflokknum. Að vísu er enn margt óupplýst um upphaf svonefnds REI-máls, en allir vita að það voru einmitt borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sex af sjö, sem stöðvuðu það sem þar stóð til, og varð það til þess að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins gekk til samstarfs við vinstriflokkana. Þá kvörtuðu eigendur FL-Group sáran yfir því að ríkisstjórn Geirs Haardes hefði ekki fallist á málaleitan þeirra síðastliðið haust, heldur einfaldlega boðist til að taka Glitni yfir. Þannig að allt mútutal en enn sem komið er út í loftið, að minnsta kosti verður ekki enn séð að Sjálfstæðisflokkurinn hafi „borgað“ fyrir styrkina.
- Aðrir flokkar hafa síðustu daga haldið því fram að þeir hafi ekki þegið „sambærilega“ styrki. Hugsanlega er það rétt. En jafnvel þó svo væri, þá er hér til margs að líta. Fyrir lítinn og illa stæðan flokk getur mun lægri styrkur en hér var um að ræða, skipt verulegu máli. Styrkir geta líka verið með ýmsu móti og þurfa ekki að koma fram með því einu að fé fari af einum reikningi í flokkssjóð. Fyrirtæki sem rekur fjölmiðil getur til dæmis styrkt flokk með því að veita honum mjög verulegan afslátt af auglýsingaverði, sem eru verulegur hluti útgjalda flokks. Slíkt fyrirtæki gæti jafnvel beitt umræddum fjölmiðlum í þágu einstakra flokka á mikilvægum augnablikum. Fyrirtæki geta lánað flokki húsnæði á besta stað undir kosningaauglýsingar, leigulaust eða leigulítið. Fyrirtæki geta tekið að sér að greiða reikninga sem ella féllu á viðkomandi stjórnmálaflokk.
- Hættan við gríðarlega styrki af þessu tagi verður ekki sú að styrkveitandinn vilji einn daginn fá eitthvað í staðinn. Hættan verður sú að einn daginn hóti hann að upplýsa um styrkinn og koma viðkomandi stjórnmálamanni eða flokki í vandræði – hvort sem það yrði gert í þeim tilgangi að koma þeim flokki í vandræði eða þá kannski fremur til þess að senda öðrum flokkum skilaboð: Svona getum við farið með þessa gaura, nú vitið þið hvað við getum gert við ykkur.
- Ef að vinstriflokkarnir hafa þegið styrki eða aðra liðveislu af þessum fyrirtækjum eða öðrum sambærilegum, hvernig halda menn að staða þeirra gagnvart eigendum þessara fyrirtækja sé í dag? Þeir skjálfa þá á beinunum.