E ins og mörgum er í fersku minni kom „þjóðin“ saman á Austurvelli í vetur þar til Samfylkingin fékk annan samstarfsflokk í ríkisstjórn. Að vísu vantaði jafnan um 99% þjóðarinnar á þennan samblástur en vafalaust langaði þau líka að vera þarna með mótmælaspjöld, egg, málningu, bálkesti, saur og grjót. Hver hefði ekki hrifist með þegar ráðist var á jólatréð frá Osló, þessa uppljómuðu táknmynd feðraveldis, orkusóunar og spillingar?
Fjölmiðlar hafa mikið reynt að halda því að fólki að þessar samkomur hafi verið „búsáhaldabylting“. Þjóðinni hafi ofboðið og streymt út á göturnar með mótmælaspjöldin sín, potta og pönnur. Öðrum hefur þótt blasa við að „búsáhaldabyltingin“ hafi verið skipulögð af ríkisstofnun sem heitir Vinstri hreyfingin grænt framboð og studd af ótrúlegu offorsi að annarri ríkisstofnun sem sem réttnefnd er Ríkisútvarpið, ekki síst fréttastofu þess. Um leið og vinstrigrænir voru komnir í ríkisstjórn hættu herútboðin ekki bara að vera fyrstu fréttir Ríkisútvarpsins heldur hurfu þau alveg úr fréttatímunum.
Gísli Freyr Valdórsson stjórnmálafræðingur birti í gær nokkrar myndir af skrifstofuhúsi vinstri grænna við Suðurgötu í Reykjavík. Myndirnar tók hann í fyrrakvöld. Inn um glugga flokksins gefur að sjálfsögðu að líta mynd af hinum geðþekka morðingja Che Guevara og auðvitað Ísland úr Nato mótmælaspjöld. Friðarsinnar hampa eðlilega morðingjum og amast við varnarbandalögum sem tryggt hafa frið í meira en hálfa öld.
Á myndunum má einnig sjá ýmis af þeim heimilislegu mótmælaspjöldum sem „þjóðin“ mætti með á Austurvöll í vetur.