E ins og fram hefur komið í fréttum hefur Sjálfstæðisflokkurinn skilað styrk frá Neyðarlínunni sem er í meirihlutaeigu ríkisins. Gömlu flokkarnir fjórir hafa svo allir skilað styrk frá ríkisfyrirtækinu Íslandspósti. Enda er ekki heimilt að taka við styrkjum frá opinberum fyrirtækjum samkvæmt lögum um fjármál flokkanna sem starfsmenn flokkanna sömdu og þingmenn þeirra samþykktu fyrir rúmum tveimur árum. Það er þó kannski skiljanlegt að flokkar sem fá yfir 400 milljónir á ári úr ríkissjóði eigi bágt með að skilja að þeir megi ekki fá 100 þúsund kall úr öðrum spenum hins opinbera.
Vinstri grænir voru meðal þeirra sem gátu ekki farið eftir þessum reglum. Sóley Tómasdóttir er ritari flokksins. Eftir að hafa orðið uppvís að því að brjóta hin nýju lög gerir hún að vonum miklar kröfur til annarra. Til viðbótar því að fara að lögunum vill hún að Sjálfstæðisflokkurinn skili styrk frá tilteknu einkafyrirtæki.
Það sem aftur á móti orkar tvímælis er styrkur Goldfinger, eða Baltic ehf, til Sjálfstæðisflokksins. Ég get ekki ímyndað mér að almenn sátt ríki um það að kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins sé háð fyrir fjármagn sem aflað er með hlutgervingu kvenna.
Goldfinger hagnast á sölu á aðgangi að líkömum kvenna. Jafnvel þótt þar þrífist ekkert sem stangast á við lög er starfsemin ósmekkleg í hæsta máta – enda markmiðið að hagnast á konum sem kynlífshjálpartækjum fyrir karla. Vilji Sjálfstæðisflokkurinn hafa áhrif á ímynd sína ætti hann að skila styrk Goldfinger strax. |
Ásgeir Þór Davíðsson er eigandi Goldfingers. Á Fésbókarsíðu sinni segir Ásgeir um fréttaflutninginn af þessum styrk til Sjálfstæðisflokksins og gagnrýni á styrkveitinguna: „Hvað er að ske, af hverju segja hinir flokkarnir ekki frá styrknum til þeirra?“ Aðspurður hvort hann hafi styrkt þá flokka sem gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn fyrir að taka við styrk frá eiganda Goldfinger segir hann: „Ég styrkti þá alla.“