V orhefti tímaritsins Þjóðmála kom út í vikunni og kennir þar margra grasa eins og löngum áður. Megingreinar hvers heftis eru þrjár og að þessu sinni tengjast þær hver á sinn hátt íslenskum þjóðmálum síðustu mánuði. Vilhjálmur Eyþórsson rithöfundur skrifar beinskeytta grein sem hann nefnir „Þjóðin, það er ég!“, og má ekki túlka þá fyrirsögn sem mikilmennskuæði hafi runnið á manninn heldur fjallar hann um þá tilhneigingu lýðskrumara allra alda að þykjast tala í nafni þjóðar sinnar. Hver kannast ekki við upphrópanir, sem fréttamenn endursegja athugasemdalaust, að „þjóðin“ hafi krafist þessa eða hins? Að þjóðin styðji eitt en sé á móti öðru? En hefur nokkur fjölmiðill spurt hvenær og hvernig þjóðin hafi lýst þeirri skoðun? Á flestum mótmælasamkomum síðustu mánaða voru viðstaddir færri en þeir sem síðast kusu Ástþór Magnússon Wium sem forseta. Samt hika ræðumenn ekki við bera íslensku þjóðina fyrir skoðunum sínum.
Gunnlaugur Jónsson skrifar í Þjóðmál um þá furðulegu stöðu sem frjálshyggjumenn eru lentir í, eftir að fjármálakreppan breiddist út um heiminn. Eins og hann rekur í grein sinni þá má rekja þessa fjármálakreppu heimsins til galla sem frjálshyggjumenn hafa áratugum saman bent á og varað við. Þegar þessir gallar verða loks til þess að víðtæk fjármálakreppa verður, þá birtast hvarvetna lýðskrumarar og kenna frjálshyggjunni um allt saman. „Hversu oft ætla menn að taka upp meiri og meiri sósíalisma og kenna svo frjálshyggjunni um þegar það fer illa?“ spyr Gunnlaugur og skyldi engan undra.
Allt frá valdatöku sinni hafa pólitískar hreinsanir verið helsta áhugamál minnihlutastjórnar vinstriflokkanna, ásamt auðvitað „kynjaðri hagstjórn“, banni við nektardansi og fleiri áríðandi gömlum baráttumálum. Gísli Freyr Valdórsson blaðamaður og stjórnmálafræðingur fer yfir hreinsanasögu ríkisstjórnarinnar og rekur ofsann og ótrúleg vinnubrögðin.
Margt fleira áhugavert er í Þjóðmálum. Haukur Þór Hauksson viðskiptafræðingur skrifar um þá sprengingu sem varð í útgjöldum ríkisins á síðustu árum, en ekki þarf að hafa mörg orð um að auðveldara væri að glíma við efnahagserfiðleika nú, ef menn hefðu kunnað sér meira hóf. Jón Sigurðsson fyrrverandi seðlabankastjóri gagnrýnir ný lög um seðlabanka Íslands mjög harðlega. Ólafur Teitur Guðnason snýr aftur á ritvöllinn og fer yfir fullyrðingar Indriða H. Þorlákssonar um að efnahagslegur ávinningur af virkjunum og orkuvinnslu sé lítill. Fullyrðingar Indriða vekja nú meiri athygli en ella, því Steingrímur J. Sigfússon sótti hann nýlega og setti sem ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, svo ætla má að þar tali hinn merkasti maður.
Ekki verður allt hið fróðlega og umhugsunarvekjandi efni Þjóðmála rakið hér – en benda má á að áskrift að Þjóðmálum, og stök hefti tímaritsins, fæst í Bóksölu Andríkis. Allir frjálslyndir og borgaralega þenkjandi menn ættu að vera áskrifendur að Þjóðmálum.