Í fyrradag var sagt frá bók Óla Björns Kárasonar, Stoðir FL bresta, þar sem fjallað er um síðustu ár í lífi þessa kunna og umdeilda fyrirtækis. Meðal þess sem ástæða var til að vekja athygli á, er að höfundur sýnir að það er hægt að fjalla um hin umtöluðu „útrásarfyrirtæki“ á gagnrýninn hátt án þess að draga um leið þær röngu ályktanir sem mörgum álitsgjöfum og stjórnmálamönnum reynast yfirleitt nærtækastar. Óli Björn segir að Íslendingar þurfi að horfa um öxl, líta í eigin barm og gera upp við fortíðina. Ekki sé vafi að einhverjir muni þurfa að sæta ábyrgð. En svo segir hann, og undir það má heilshugar taka: „Hættan er hins vegar sú að rangur lærdómur verði dreginn af óförum okkar Íslendinga og efnahagslífið verði á ný hneppt í fjötra opinberra afskipta. Slíkt er vísasta leiðin til enn verri lífskjara og landflótta okkar hæfasta fólks.“
Allnokkrar óskir bárust um að bók þessi yrði tekin til sölu í Bóksölu Andríkis og hefur verið ákveðið að verða við þeim. Kostar hún þar 1500 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu eins og jafnan, en 600 króna sendingargjald bætist við erlendar pantanir.
A lþingi glímir nú við frumvarp til breytinga á stjórnarskránni enda hefur ríkisstjórnin fátt að segja um efnahagsmál en margt um annað. Samkvæmt reglum ber að kjósa sérstaka þingnefnd til að fjalla um slík frumvörp. Fréttamenn og þingkonur eru mjög æstar. Ekki yfir stjórnarskrárfrumvarpinu eða því að það hafi algeran forgang fram yfir allt sem snýr að efnahagsmálum. Nei, mál málanna er að sjálfsögðu kynjahlutföllin í stjórnarskrárnefndinni.