Miðvikudagur 11. mars 2009

70. tbl. 13. árg.

U ndanfarið hafa ýmsar fréttir borist innan úr hinum föllnu viðskiptabönkum og hefur ekki farið milli mála að mörgum þátttakendum í þjóðfélagsumræðunni þykir sem þar hafi komið í ljós mörg mjög alvarleg lögbrot í rekstri bankanna. Ekki veit Vefþjóðviljinn um það, en ef svo er, þá er mikilvægt að þau mál fari í eðlilegan farveg sem fyrst. Sumir virðast hins vegar halda að frjálslyndir menn trúi því aldrei að pottur geti verið brotinn í rekstri einkafyrirtækja; að frjálshyggjumenn trúi engu illu upp á viðskiptamenn á markaði og vilji að þeir geti valsað um allt án þess að bera ábyrgð á gerðum sínum.

Svo er hins vegar alls ekki. Að sjálfsögðu átta frjálshyggjumenn sig á því, að fólk sem á í viðskiptum er eins og annað fólk. Í viðskiptum verða gerð mistök eins og annars staðar í daglegu lífi og að sjálfsögðu munu einhverjir brjóta af sér í viðskiptum eins og annars staðar. Hjá því verður því miður ekki komist. Á öllum sviðum mannlegs lífs munu afbrot alltaf finnast, að minnsta kosti svo lengi sem fólki verður ekki gert að búa í algeru eftirlitsþjóðfélagi.

Sumir tala eins og þeir vilji að afbrot séu útilokuð. Frjálshyggjumenn benda hins vegar á, þó það hljómi sjálfsagt ekki vel við fyrstu heyrn, að menn verða, þrátt fyrir allt, að kunna sér hóf í viðleitni sinni við að gera afbrot óhugsandi. Afbrot eru vissulega lítið ánægjuefni og það á vitanlega að kosta kapps um að þau komi ekki niður á saklausu fólki, sem og að reyna að tryggja sem best að þeir sem þau drýgja beri ábyrgð á gjörðum sínum. Menn verða hins vegar að átta sig á því, að ekki verður komið í veg fyrir afbrot nema að hið opinbera fylgist með hverri hreyfingu hvers manns, og slíkt dygði varla til. Það er raunar svo, að flest afbrot munu framin innan veggja heimilis og mörg þeirra eru með þeim alvarlegustu sem þekkjast. Engu að síður vilja fæstir fá opinberar myndavélar og eftirlitsmenn inn á heimilin.

Þó að frjálshyggjumenn vari við offorsi við opinbert eftirlit með einstaklingum og fyrirtækjum þeirra, þá er alls ekki svo að þeir loki augunum fyrir því að í viðskiptalífinu geta eins og annars staðar verið framin alvarleg afbrot og menn reynt að auðgast ólöglega á annarra kostnað. Rétt eins og ætíð munu vera til brotamenn svo lengi sem einhver fær að ganga laus, þá verður ekki komist með öllu hjá lögbrotum í atvinnurekstri svo lengi sem einhver fær að stunda atvinnurekstur. Ekki af því að fólk í viðskiptalífinu sé óheiðarlegra en annað fólk, heldur einfaldlega vegna þess að fólk í viðskiptalífinu er einmitt þetta: lifandi fólk. Það munu alltaf einhverjir verða til þess að fara á svig við reglur. Við því verður aldrei spornað til fulls, nema menn vilji loka alla inni til öryggis.

Frjálshyggjumenn eru eindregið andvígir því að skattgreiðendur séu látnir bera ábyrgð á óförum einkafyrirtækja, hvort sem ófarirnar koma til af afsakanlegum eða óafsakanlegum hlutum, eða þá samblandi þessa. Það á að leyfa fólki að reka fyrirtæki sín og ekki gera þá starfsemi ómögulega með svo þungbæru eftirliti að ekkert geti þrifist undan því. Ef menn brjóta lög í rekstrinum, þá verða þeir að sjálfsögðu að bera ábyrgð á því, og slíku andmæla frjálshyggjumenn að sjálfsögðu ekki. Þeim finnst þvert á móti afar mikilvægt að sömu reglur gildi um alla og allir beri ábyrgð á viðskiptaháttum sínum. Frjálshyggjumenn eru algerlega andvígir því að aðrar reglur gildi um þann sterka en þann veikari.

Fyrir nokkrum vikum kom út bók þar sem einn þekktasti viðskiptablaðamaður landsins skrifaði um örlög fyrirtækis sem um skeið var í hópi þeirra stærstu. Í bókinni Stoðir FL bresta sagði hinn frjálslyndi blaðamaður, Óli Björn Kárason, sögu fyrirtækisins sem á síðustu árum var þekkt undir nafninu FL Group og flaug hátt um tíma. Segir Óli Björn að saga félagsins sé „dapurlegur vitnisburður um framgöngu íslenskra viðskiptajöfra á undanförnum árum, áfellisdómur yfir sinnulausum almennum hluthöfum, varpar ljósi á dómgreindarleysi greiningardeilda bankanna og sýnir vel hve veikburða íslenskir fjölmiðlar hafa verið gagnvart ráðandi öflum í viðskiptalífinu.“ Ekki tekur Vefþjóðviljinn afstöðu til þessa dóms Óla Björns, en tekur hins vegar heilshugar undir skynsamlega ábendingu Óla Björns í formála bókarinnar. Þar segir hann að Íslendingar þurfi að horfa um öxl, líta í eigin barm og gera upp við fortíðina. Ekki sé vafi að einhverjir muni þurfa að sæta ábyrgð. En svo segir Óli Björn, og undir það má heilshugar taka: „Hættan er hins vegar sú að rangur lærdómur verði dreginn af óförum okkar Íslendinga og efnahagslífið verði á ný hneppt í fjötra opinberra afskipta. Slíkt er vísasta leiðin til enn verri lífskjara og landflótta okkar hæfasta fólks.“

Eins og áður segir tekur Vefþjóðviljinn almennt ekki afstöðu hér og nú til einstakra fullyrðinga eða niðurstaðna Óla Björns um málefni þessa tiltekna félags. En það er afar mikilvægt að menn átti sig á því, að jafnvel þó illa hafi sums staðar farið í viðskiptalífinu, og af ýmsum misskemmtilegum ástæðum, þá er ríkisvæðing og drómadrepandi eftirlit ekki svarið við þeim aðstæðum sem nú blasa við. Sá skilningur er afar mikilvægur við bók Óla Björns, þar sem höfundur bendir á afar margt sem honum þykir hafa verið athugavert, en áttar sig jafnframt á hættunni af því að rangur lærdómur verði af því dreginn. Ef marka má opinbera umræðu nú um stundir þá er slík hætta raunveruleg.
Sú hætta ætti að vera frjálshyggjumönnum hvatning til að standa vörð um málstað sinn og færa fram rök fyrir honum. Það er í almannahag að berjast gegn ríkisvæðingu og stórfelldu eftirlitsþjóðfélagi. Ekki vegna þess að einstaklingarnir brjóti aldrei af sér, heldur vegna þess að frelsið er þrátt fyrir allt betra en höftin, frumkvæði frjálsra einstaklinga er betra – og ótvírætt geðfelldara – en skipulag opinberu fagmannanna sem aldrei treysta borgurunum og verða aldrei glaðari en þegar þeir geta gómað einhvern sem fer út af sporinu.