Af þeim [29] nefna 18 hvorki gjaldmiðilinn né ESB. Það er athyglisvert í því ljósi að Ísland er land í gjaldeyriskreppu. Fimm frambjóðendur eru klárlega andvígir aðild að Evrópusambandinu. Af þeim útilokar aðeins einn upptöku evru, en hinir útskýra reyndar ekki hvernig ætti að taka hana upp ef Ísland færi ekki í ESB. |
– Staksteinar Morgunblaðsins í dag velta fyrir sér afstöðu frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. |
E kkert hefur haft meiri áhrif á lífskjör Íslendinga undanfarin misseri en vantrúin á krónuna og fall hennar sem af því leiddi. Mikill fjöldi heimila og fyrirtækja er í verulegum vandræðum vegna þess. Oftrúin á krónuna árin þar á undan er auðvitað hluti vandans. Það kemur því að vissu leyti á óvart hve fáir frambjóðendur nefna gjaldmiðilsmálin í prófkjörsblaði sjálfstæðismanna í Reykjavik þótt auðvitað geri fleiri grein fyrir skoðunum sínum á þeim efnum á öðrum vettvangi, blaðagreinum og viðtölum.
Þetta er sérlega undarlegt í því ljósi að Sjálfstæðisflokkurinn vanrækti eins og aðrir stjórnmálaflokkar þessa umræðu á undanförnum árum. Samfylkingin þykist að vísu hafa sinnt málinu en það var alltaf sem hluti af umræðu um aðild að ESB. Hinir flokkarnir voru fráhverfir umræðu um gjaldmiðilsmálin því þeir vildu ekki opna fyrir umræðu sem leiða myndi til umræðu um ESB aðild.
Því miður festist umræða eða umræðuleysið um gjaldmiðilinn í þessu fari. Einn flokkur vildi ekki ræða hann nema sem fylgifisk umræðu um aðild að ESB, hinir ekki af ótta við að umræðan myndi geta af sér ESB aðild.