S igríður Á. Andersen héraðsdómslögmaður víkur að prófkjörum vinstri flokkanna á vef sínum í dag. Hún vekur athygli á að vinstri flokkarnir breyti hiklaust röð frambjóðenda eftir prófkjör þótt þeir þykist vilja „persónukjör“ og „minna flokksræði“. Eftir að kjósendur í prófkjörunum hafi sagt sitt álit komi flokkarnir með sínar formúlur og endurraði á framboðslistana.
Vinstriflokkarnir hafa haldið prófkjör undanfarna daga. Fréttir af niðurstöðum þeirra hafa verið ótrúlega sambærilegar. Meginniðurstaðan hefur verið sú að efstur á hverjum stað verður sá sami og var efstur síðast. Enn hefur því ekkert gerst sem bendir til þess að nýir menn verði ráðherraefni vinstriflokkanna að kosningum loknum. Þegar fréttamenn hafa sagt frá árangri efstu manna þá kemur jafnan stutt athugasemd um að vegna reglna flokksins um „kynjakvóta“ eða „fléttulista“ þá sé röðinni breytt þannig að þessi eða hinn færist upp og einhver annar niður.
Dögum saman hafa fréttir sem þessar verið lesnar yfir landsmönnum. Enn hefur ekki einum einasta fréttamanni dottið í hug að setja þessar breytingar á prófkjörsúrslitum í samhengi við lýðskrum vinstriflokkanna um „persónukjör“ og „minna flokksræði“. Hér hefur fólk mætt á kjörstað og gert upp á milli frambjóðenda eftir vilja sínum og smekk. Og hvað gerist? Flokkurinn breytir úrslitunum og raðar öðruvísi en kjósendur vildu. Og sami flokkur þykist í hinu orðinu berjast fyrir auknu vali kjósenda, „persónukjöri“. Tal vinstriflokkanna um persónukjör er sama lýðskrumið og annað. En enginn fréttamaður bendir á það, fremur en aðra slíka hluti í vinstriranninum. Þannig segja fréttamenn nú dag eftir dag að Jóhanna Sigurðardóttir sé forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar en velta því aldrei fyrir sér hver hafi ákveðið það, löngu fyrir bæði landsfund flokksins og kosningar. Ekki fremur en þeir veltu því fyrir sér síðast þegar formaður Samfylkingarinnar tilkynnti slíkt upp á sitt eindæmi. |
Er ekki eins og Sigríður segir orðið alveg útséð um að fréttamenn sjái eitthvað athugavert við „samfylkingarlýðræði“ vinstriflokkanna.
Já og hvaða fjölmiðill ætlar að segja frá því hvaða þingmaður græddi mest á „eftirlaunafrumvarpinu“?
Og hvaða fjölmiðill ætlar að benda á falsrök Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir seðlabankastjórafrumvarpinu?
Og hvaða fjölmiðill ætlar að rifja upp verðlaunaveitingu Gylfa Magnússonar til Kaupþings, fyrir öran vöxt og öfluga útrás?