N ú hefur verið upplýst, að fjármálaráðherra Bretlands upplýsti fyrir breskri þingnefnd, skömmu eftir beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslandi, að það hafi verið gert vegna túlkunar hans á samtali við íslenska fjármálaráðherrann. Sá breski hefur líklega misskilið samtalið illilega, því ekkert hefur komið fram í orðum eða gerðum íslenskra ráðamanna sem réttlæta þetta fólskuverk Breta.
En nú þegar þetta liggur fyrir, er þá nokkur vafi að þeir munu koma í röðum, fjölmiðlamennirnir, álitsgjafarnir, bloggaranir og aðrir Samfylkingarmenn, sem í fimm mánuði hafa hamast á þeirri fjarstæðu að ummæli seðlabankastjóra í Kastljósviðtali hafi haft þessi áhrif? Sú stöðuga síbylja um þetta, sem gekk dag eftir dag eftir dag upp úr þessum aðilum, og var kynt undir af krafti í fréttatímum, skipti nú ekki litlu máli til að búa til almenningsálit sem notað var til að hræða þingmenn frá andstöðu við hatursfrumvarp Samfylkingarinnar um seðlabankann. En nú koma afsökunarbeiðnirnar í röðum, endurteknar jafn oft og fráleitar ásakanirnar.
Þ að blasir við að óheimilt er að setja Norðmann í starf seðlabankastjóra á Íslandi. Stjórnarskráin bannar að útlendingur sé skipaður í embætti á Íslandi, og af því leiðir að sjálfsögðu að óheimilt er að setja hann í starfið. Það er ekki heimilt að setja mann í starf sem ekki er heimilt að skipa hann í – og umfram annað þá blasir við að stjórnarskrárákvæðið er til að tryggja að ætíð sitji Íslendingar í íslenskum embættum. Að öðrum kosti væri hægt að setja alla embættismenn af, á einu bretti, og setja þúsund Kínverja í þeirra stað.
E n sem betur fer er engin þörf á að setja neinn seðlabankastjóra. Eins og bent var á, við lítinn áhuga fréttamanna, þegar fjallað var um seðlabankastjórafrumvarpið, þá var með því ekki lagt niður embætti aðalbankastjóra, sem þá gegndi Davíð Oddsson. Ef sett eru í lög, ákvæði um að auglýsa skuli laust til umsóknar embætti sem tiltekinn maður gegnir, og það án þess að skipunartími sé liðinn, þá er það í raun lagaákvæði um að tiltekinn nafngreindur maður skuli rekinn úr starfi, en starfið skuli fengið einhverjum öðrum.
Því miður kæru Samfylkingarmenn, innan og utan fjölmiðlanna, slíkt lagaákvæði er í andstöðu við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og skoðast í því ljósi. Það er ekki hægt að setja sérstök lög um að Jón Jónsson, tollstjóri, skuli rekinn úr starfi og einhver nýr ráðinn. Sama gildir um önnur embætti, jafnvel þó þeir sem þeim gegna hafi lengi legið á sálinni á fréttamönnum. Lagaákvæðið, sem Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að nota til að auglýsa það starf sem Davíð Oddsson hefur skipun í til ársins 2012, er þýðingarlaust.
Nema vitaskuld að menn haldi að stjórnarskráin hafi verið felld úr gildi á þjóðfundi sem nýlega hafi verið boðað til í Víðsjá.
F immtíu prósent svarenda í skoðanakönnun sögðust ánægð með „störf Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra“. Því miður hugkvæmdist Gallup ekki að spyrja um það hvaða störf það væru sérstaklega.
EE ngir fundir voru á alþingi í dag og allt stopp. Eina mál ríkisstjórnarinnar var orðið að lögum og nú liggur ekki á neinu lengur.