Í pistli á fréttasíðunni AMX rifjar Styrmir Gunnarsson, sem lengi hefur haft aðrar hugmyndir en Vefþjóðviljinn um lögskipaða dreifða eignaraðild að fyrirtækjum, upp að við upphaf einkavæðingar ríkisbankanna hafi þáverandi forsætisráðherra mælt með slíkum reglum, en fengið litlar undirtektir.
Stuðningur við löggjöf um dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum var takmarkaður. Í ágústmánuði 1998, þegar einkavæðing ríkisbankanna var í burðarliðnum lýsti Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks, þeirri skoðun í viðtali við Morgunblaðið, að setja ætti löggjöf, sem takmarkaði eignarhald eins aðila eða tengdra aðila í banka við 3-8% af hlutafé viðkomandi banka. Þessum hugmyndum var illa tekið af Sighvati Björgvinssyni, þá formanni Alþýðuflokks, sem lýsti því viðhorfi í viðtali við dagblaðið Dag, að raunverulegt markmið Davíðs Oddssonar væri að setja löggjöf um að Jón Ólafsson í Skífunni mætti ekki eiga hlutabréf. Þessum ummælum Sighvats fylgdi Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingar, og nýr ráðherra félags- og tryggingamála, eftir með því að segja í viðtali við sama blað, að umræður um löggjöf af þessu tagi sýndu, að hinn svonefndi Kolkrabbi hefði áhyggjur af stöðu mála. |
Er ekki alveg öruggt að þeir sem nú tala sem mest um að lykillinn að öllum óförum landsins sé að ríkisbankarnir hafi verið seldir í of stórum skömmtum, eða röngum mönnum, eða á of lágu verði, aðeins of seint eða aðeins of snemma, muni rifja þetta upp í stóryrtum skrifum sínum?
Í þessari umræðu getur Vefþjóðviljinn ekki stillt sig um að nefna í milljónasta sinn þá hugmynd að þegar kemur að einkavæðingu ríkisfyrirtækja verði landsmönnum send hlutabréfin í pósti. Þá getur hver um sig ákveðið hvort hann haldi í bréfið sitt og stuðli að dreifðri eignaraðild eða bara selji það. Það merkilega er að margir stjórnmálamenn á vinstri vængnum eru andsnúnir þessari hugmynd um einkavæðingu með póstinum. Þeir eru samt alltaf að tala um að „þjóðin eigi“ þessi fyrirtæki og ekki megi afhenda þau fáum útvöldum. Á endanum komast þeir svo jafnan að þeirri niðurstöðu að fyrirtækjunum sé best stýrt af meirihluta – nú eða minnihluta eins og um þessar mundir – 63 þingmanna.
- Undanfarnar vikur og mánuði hafa menn hrópað og skrifað að á íslenskum fjármálamarkaði hafi ekki gilt neinar reglur. Menn hafi bara einkavætt, „vakið upp Frankenstein“ og leyft mönnum að ganga sjálfala. Í gær auglýsti Andríki í dagblöðunum þau lög og reglur sem gilda raunar í þessu landi „nýfrjálshyggjunnar“ og þöktu aðeins nöfn þeirra heila dagblaðssíðu með örletri. Nú heyrist umræðan úr sömu áttum vera sú, að það hafi raunar gilt reglur, en það breyti nú engu því að menn hafi þá bara ekki farið eftir þeim. Það hljóti að vera hinu opinbera að kenna. Ekki skal Vefþjóðviljinn fullyrða um hugsanleg lögbrot, þó vafalaust sé að einhverjir hafi brotið þessar reglur, rétt eins og alltaf verða einhverjir til þess að brjóta lög og reglur. En sjá menn virkilega ekki hvílíkur munur er á stöðu og ábyrgð, eftir því hvort reglur eru til eða ekki til? Sjá menn ekki hvað það gerbreytir málinu, ef að reglurnar voru raunverulega fyrir hendi?
- Ekki mælir Vefþjóðviljinn við því að lög séu brotin. En lögbrot verða alltaf framin – og vonandi vill enginn búa í þvílíku eftirlitsþjóðfélagi að menn komist aldrei undan auga ríkisins. Það eitt, að lögbrot kunni að hafa verið framið á einhverju sviði, hvort sem það er í umferðinni, innan veggja heimilis, í viðskiptum eða annars staðar, er ekki til marks um að eitthvert kerfi þurfi að hafa verið ónýtt eða að lögreglan eða aðrir aðilar hafi „brugðist“. Hafi lög verið brotin, þá á einfaldlega að rannsaka það og refsa hinum seku ef sök þeirra sannast. Menn eiga hins vegar ekki að láta sig dreyma um að ríkið eða einhverjir aðrir geti alltaf hindrað lögbrot fyrirfram.
- Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon segjast vilja koma á þeim „skattabreytingum“ að þeir sem meira beri úr býtum borgi meira til ríkisins en hinir. Aldrei eru þau spurð hvort skattkerfið sé ekki einmitt þannig nú og hafi alltaf verið. Aldrei þurfa þau að svara því, með nokkru sem hönd á festir, hvaða „skattabreytingar“ þau vilji gera. Alltaf fá þau að komast upp með almennt hjal um „breiðu bökin“. Af hverju er ekki spurt hreint út, til dæmis hvort þau vilji þrepaskiptan tekjuskatt eða ekki, og þá að sjálfsögðu hvar þrepin eigi að vera?
- Eins og hér hefur verið nefnt og líklega hvergi annars staðar, talaði Gylfi Magnússon dósent og stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins harðlega fyrir því að allir þeir sem hefðu komið að skipulagi íslensks viðskiptalífs hyrfu af vettvangi. Á þessu var sú undantekning að Gylfi vildi ekki að stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins viki úr því hlutverki sínu. Gylfi hélt meira að segja um þetta mikla ræðu á útifundi Harðar Torfasonar, nokkrum dögum áður en hann settist í nýja ríkisstjórn undir forsæti annars gamla stjórnarflokksins. Menn hefðu nú hugsanlega búist við að Gylfi kæmist ekki hjá því að sleppa hendinni af stjórnarformennsku Samkeppniseftirlitsins, nú þegar hann er orðinn ráðherra samkeppnismála, en nei, Gylfi Magnússon bað bara um „leyfi“ sem stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins og ætlar að taka aftur við formennskunni þegar hann lætur af ráðherradómi. Krafa hans um afsögn allra annarra mun óhögguð. Sama mun segja um kröfu hans um brottrekstur bankastjóra Seðlabankans, sem vöruðu oft og lengi við hugsanlegu bankahruni. Gylfi sér hins vegar ekkert athugavert við áframhaldandi ráðherradóm þeirra sem gerðu ekkert með þær viðvaranir.
- Það verður ekki af Samfylkingunni skafið, að hún kann á íslenska fréttamenn, sem svo eru kallaðir. Að vísu er það ekki sérlega vandfengin kunnátta, en þetta verður samt ekki frá Samfylkingunni tekið. Að forsætisráðherra nokkurs lands greini frá því opinberlega að ráðherrann hafi beðið þrjá seðlabankastjóra landsins að segja upp störfum, án þess að tilgreina nokkrar einustu sakir á þá, er vitanlega fáheyrt. En í huga Samfylkingarinnar var það aukaatriði hjá því sem meira skipti. Íslenskir fréttamenn hafa haft lítinn áhuga á öllu öðru á meðan beðið var svara bankastjóranna þriggja. Engar spurningar um efnahagsástandið, um hin áríðandi frumvörp „til bjargar heimilunum“ sem að sögn fengust ekki samþykkt í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ekkert nema „fréttir“ á klukkutímafresti um að bankastjórarnir hafi „enn ekki svarað“. Engin spurning til Jóhönnu um þessa einstæðu bréfasendingu, eingöngu spurt hversu lengi hún „geti beðið“ eftir svari. Íslenskir fréttamenn eru engum líkir.
- Merkilegt að sumir þeirra, sem telja að nú eigi að koma „nýtt Ísland“ og það kalli á nýja menn á öllum stöðum, virðist telja að „hið nýja Ísland“ eigi að hafa sömu fjölmiðlamenn, sömu álitsgjafa og sömu þáttastjórnendur og það „gamla“.