Helgarsprokið 18. janúar 2009

18. tbl. 13. árg.

B andaríska dagblaðið The Wall Street Journal benti á það í vikunni að bandaríska ríkisvaldið hefði frá því í október lagt Citigroup til 52 milljarða dala. Til samanburðar er efnahagsaðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins við Íslands er áætluð 5 milljarðar dala. Hvert sem menn líta um þessar mundir eru stjórnmálamenn á harðahlaupum með skattfé almennings til bankanna sem miðluðu ódýra fjármagninu (á lágu vöxtunum) út í atvinnulíf heimsins með þeim afleiðingum sem nú eru að koma í ljós; fjárfestingarnar voru gerðar á fölskum forsendum, lánin verða aldrei endurgreidd og bankarnir eru í vanda.

Ákvarðanir um þessa lágu vexti voru teknar í ríkisstofnunum, seðlabönkum, sem kunna að vera kallaðar sjálfstæðar og stýrt af sprenglærðum hagfræðingum en eru auðvitað undir pólitískum þrýstingi. Stjórnmálamenn vilja lága vexti svo hjól atvinnulífsins taki að snúast í tæka tíð fyrir næstu kosningar. Þrýstihópar atvinnulífsins hrópa sömuleiðis á lánsfé á niðursettum vöxtum. Enginn verkalýðsforingi lætur 1. maí ganga í garð um land allt án þess láta nokkur vel valin orð falla um „vaxtaokrið“.

Í bók sinni Economics for Real People – An Introduction to the Austrian School gerir Gene Callahan gerir grein fyrir þeim fúnu stoðum sem fjármálakerfi heimsins hvílir á. Bókin er raunar eins og nafnið bendir til almenn kynning á austurríska skólanum í hagfræði. Ein helsta gersemi austurríska skólans er hagsveiflukenning hans. Vefþjóðviljinn rakti hana í nokkrum orðum 24. október 1999 í tilefni þess að 70 ár voru liðin frá svarta fimmtudeginum á Wall Street: „Samkvæmt kenningunni eiga krappar efnahagslægðir með fjöldagjaldþrotum sér aðeins stað þar sem skilaboð frá neytendum til fyrirtækja hafa verið brengluð. Vextir veita fyrirtækjum upplýsingar um hversu miklu neytendur vilja eyða strax og hve miklu síðar. Það er hve mikið neytendur vilja eyða og spara. Ef fyrirtækin eru afvegaleidd um þennan smekk neytenda á því hvenær sé best að eyða peningum hljóti þau að taka rangar ákvarðanir um framleiðslu. Á þriðja áratugnum í Bandaríkjunum var mikil efnahagsuppsveifla. Austurrísku hagfræðingarnir halda því fram að ein af ástæðunum fyrir þessari miklu uppsveiflu hafi verið ódýrir peningar eða ódýrt lánsfé. Seðlabankinn hafi aukið peningamagn í umferð óeðlilega mikið og það hafi leitt til lægri vaxta sem gáfu fyrirtækjum til kynna að auka framleiðslu, ekki síst frumframleiðslu.“

En að Callahan sem segir að bankar njóti einstakrar stöðu gagnvart ríkisvaldinu og það skýri óábyrga hegðun þeirra:

Hin sérstaka staða banka gagnvart ríkisvaldinu veldur því að þeir starfa nær án áhættu. Þeir geta teflt á tæpasta vað í lánveitingum. Ef hættuspilið gengur upp hagnast þeir. Nú ef ekki, þá kemur ríkið til bjargar. Þetta hefur svonefndan freistnivanda í för með sér. Bankarnir freistast til að taka meiri áhættu en þeir myndu gera ef þeir sætu sjálfir uppi með ábyrgðina af gjörðum sínum. Lögin veita bönkum þá einstöku stöðu í hagkerfinu að allir aðrir eru látnir súpa seyðið af mistökum þeirra.

Callahan lýsir því einnig hvernig þetta sérstaka samband stjórnvalda og bankakerfisins þróast og hvernig það leiðir til þess að ríkið hættir að gefa út peninga sem vísa á önnur verðmæti.

Eitt helsta ráð stjórnvalda til að rétta af fjárhag gjaldþrota banka er að hafa til staðar seðlabanka sem veitir lán til þrautarvara. Það gefur auga leið að í hvert sinn sem bankakerfið lendir í vandræðum verður álagið á sjóði seðlabankans gríðarlegt. Fyrr en síðar mun seðlabankinn gefast upp á því að greiða út peninga sem vísa á önnur verðmæti og einfaldlega lýsa því yfir að seðlarnir sem eru í umferð séu einu raunverulegu peningarnir. Peningar af þessari tegund eru kallaðir fótalaust fé (e. fiat money) – þeir eru peningar af þeirri einu ástæðu að stjórnvöld hafa sagt þá vera það.

Í raun væri því nær að segja að fjármálakerfi hvíli á engum stoðum en fúnum því gjaldmiðlar ríkisins vísa ekki lengur í önnur verðmæti eins og gull eða silfur. Fé á gullfæti er auðvitað ekki heldur fullkomið kerfi í höndum óvandaðra stjórnvalda en það getur engu að síður haldið aftur af seðlaprentuninni. Að minnsta kosti betur en kerfi sem nákvæmlega ekkert er á bak við.

Án útgáfu gjaldmiðils væri ríkisvaldið í mun þrengri stöðu til að blása lofti í verðbólur eins og þá sem myndaðist fyrir Kreppuna miklu eða þá sem sprakk nú nýlega. Þá þyrftu stjórnmálamennirnir að láta sér útgjöld ríkisins duga en gætu ekki búið til gervigrósku með seðlaprentun.

Hvað þarf eiginlega margar fjármálakreppur til að seðlaprentunarvaldið verði tekið af pólitíkusunum?