Miðvikudagur 14. janúar 2009

14. tbl. 13. árg.
Ef uggvænt þykir að óspektir verði á mótmælafundi, í kröfugöngu eða á annarri slíkri samkomu á opinberum stað er lögreglu heimilt að banna að maður breyti andliti sínu eða hylji það eða hluta þess með grímu, hettu, málningu eða öðru þess háttar sem er til þess fallið að koma í veg fyrir að kennsl verði borin á hann.
– 3. mgr. 15. gr. lögreglulaga.

H

„Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð“, segir í lögum um Ríkisútvarpið. Samt hika starfsmenn þess ekki að velja sér þóknanlega stjórnmálafundi til að senda út í heild.Mynd: Gunnar Gunnarsson ljósmyndari borgarafundanna

vað á þessi vesaldómur að standa lengi? Í gær gerðist það að hópur öskrandi ungmenna hindraði forsætisráðherra í að komast á ríkisstjórnarfund. Af fréttamyndum að dæma var umhverfisráðherra hrint þegar hún reyndi að komast á fundinn. Lögreglan mætti á staðinn en handtók ekki nokkurn mann fyrr en skemmdarverk hófust, sem þessu unga fólki er mjög tamt. Aldrei kalla fréttamenn það þó annað en „mótmælendur“.

Það er eins og sumir hafi misst fótanna við það að bankarnir komust í þrot. Sumir virðast halda að lög og reglur hafi verið afnumin, jafnvel stjórnarskráin líka. Að það þurfi ekki að hlýða lögreglunni. Að kjörtímabili alþingis ljúki áður en það er hálfnað. Að skemmdarvargar séu bara „mótmælendur“ sem megi vaða uppi. Að meiðyrðalöggjöfin hafi verið numin úr gildi. Að hægt sé að frysta eigur fólks án dóms og laga. Að nú geti menn bara haldið fund einhvers staðar og sett þar nýja stjórnarskrá. Að nú eigi að búa til „nýtt Ísland“. Að þeir megi ekki missa mínútu frá blogginu nema rétt til að skjótast á fund og hjálpa Herði að telja. Að það sé bara allt í lagi að hvetja til byltingar. Að grjótkast geti á einhverjum tímapunkti orðið leyfileg aðferð fyrir þá sem fá ekki sitt fram eftir löglegum leiðum á stjórnmálavettvangi. Að breyta megi ríkisútvarpinu í áróðursvél þeirra sem vilja hrifsa völdin í landinu frá lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Að hlutleysisskylda starfsmanna Ríkisútvarpsins, fréttamanna, dagskrárgerðarmanna og allra annarra, sé fallin niður.

Nei, ekkert af þessu hefur gerst. Menn geta verið ósáttir við þessi lög og reglur, eins og Vefþjóðviljinn er til dæmis að einhverju leyti, en þau eru enn í fulli gildi.

Þrír bankar komust í þrot, alþingi setti umdeilanleg lög sem breyttu kröfuröð í hugsanleg þrotabú þeirra, alþingi hyggst ábyrgjast erlend innlán íslensku bankanna að ákveðnu marki og myndi það án efa skuldsetja ríkissjóð töluvert. Efnahagsástandið mun á næstu misserum verða verra en undanfarin misseri.

Þetta er það sem hefur gerst. Þó einhverjir hafi misst fótanna, jafnvel setið sem manískir í þrjá mánuði og haldið að bæði sé komið árið núll og að af einhverjum ástæðum sé komið að þeim að frelsa heiminn, þá er það ekki þannig. Allar reglur þjóðfélagsins, sem giltu fyrir fjórum mánuðum, gilda enn. Það hefur enginn – nema stjórn Fjármálaeftirlitsins – öðlast neina heimild sem hann hafði ekki áður.

Aldrei spyrja fréttamenn formann BSRB hvað honum þyki um árásir og fautaskap í garð lögreglumanna.

Það er sjálfsagt að menn velti fyrir sér, eftir því sem menn á annað borð hafa tök á, ástæðum þess hvernig fór fyrir gjaldmiðlinum og bankakerfinu og þeim sem á það treystu. Og menn hafa nákvæmlega sama rétt og áður til að halda útifundi og innifundi. Nákvæmlega sama rétt, vel að merkja, hvorki meiri né minni. Og lögreglan hefur nákvæmlega sömu skyldu og áður að tryggja lög og reglu. Og Ríkisútvarpið hefur ekki fengið neina undanþágu frá hlutleysisskyldu sinni, sem getur leyft því að sjónvarpa frá völdum fundum sumra þjóðfélagsafla en ekki annarra.

Það er með hreinum ólíkindum að lögreglan láti það viðgangast að grímuklæddir menn hindri löglega ríkisstjórn í að halda fund. Það er með hreinum ólíkindum að ráðherrar og alþingismenn standi ekki tryggari vörð um þá stjórnskipan sem þeim er treyst fyrir. Eftirgjöfin og meðvirknin í þeim hópi er með eindæmum.

Og enn hlífa fjölmiðlamenn formanni BSRB við spurningunni um það hvort hann fordæmi ekki undanbragðalaust allt ofbeldi og fautaskap sem umbjóðendum hans í Landsambandi lögreglumanna hefur verið sýnt undanfarnar vikur. Fjölmiðlamennirnir eru sennilega svo uppteknir við viðtölin við erlendu áróðursmennina sem fluttir eru inn til landsins. Á íslenskum fréttastofum er nefnilega sú trú að ómerkilegir áróðursmenn geti bara verið Íslendingar. Útlendingar séu allir fagmenn.