Í gærkvöldi var haldinn fundur í Háskólabíói. Héldu þar tölu nokkrir menn sem fundarboðandi hafði valið. Ríkissjónvarpið heldur svo áfram herferð sinni og sendi menn á staðinn, fyrst til að sýna upphaf fundarins í Kastljósi, en síðan til að taka hann allan upp til að senda út í heild. Áður hafði fundurinn verið auglýstur í fréttatíma.
Hversu lengi á þetta dekur starfsmanna ríkisútvarpsins við tiltekin þjóðfélagsöfl að standa? Hvers vegna er þjóðmálafundur eins og þessi sendur út í Ríkissjónvarpinu? Munu aðrir fá sömu þjónustu? Ef að Heimssýn boðar til fundar og velur þar ræðumenn sem það þykist vita að segi eitthvað sem félagið vill heyra, mun þá Ríkisútvarpið mæta og senda allt út, bara ef fundurinn verður í áróðursskyni kallaður „borgarafundur“? Ef að félagið fær útlenda skoðanabræður, mun Ríkisútvarpið þá kosta íslenska þýðingu fundarins, eins og það hyggst gera fyrir fundarboðendur gærkvöldsins? Sömu spurninga má að sjálfsögðu spyrja um önnur félög; Evrópusamtökin, Heimdallur, Náttúruverndarsamtökin, Ísland-Palestína,Vinir Ísraels og aðrir áhugamenn um breytingar innanlands eða utan, munu þeir fá sömu þjónustu og fundarboðendur gærdagsins hafa fengið frá Ríkisútvarpinu undanfarið?
Ætlar Ríkissjónvarpið kannski að senda út flokksþing Framsóknarflokksins í heild? Eða landsfund Sjálfstæðisflokksins?
Ríkisútvarpið auglýsir fyrirfram í „frétta“-tímum allar „mótmæla“-samkomur sem efnt er til, þó þær séu varla fréttnæmar fyrr en eftir að þær hafa farið fram. Ríkisútvarpið mætir jafnan ef það veit af æsingafólki sem rökstyður sjónarmið sín með brotnum rúðum, slettri málningu og öskrum. Ríkisútvarpið gætir þess vitanlega að kalla slíkt lið aldrei annað en „mótmælendur“. Og þegar réttir menn halda fund, þar sem þeir sjálfir velja skoðanabræður sína sem ræðumenn, þá mætir ríkissjónvarpið og sendir allt út, á kostnað skattgreiðenda. Þjóðmálaþáttastjórnendur þess sitja sem límdir við tölvuna milli þátta og blogga misjafnlega stór orð um menn og málefni, og koma svo og stýra umræðuþáttum – þar sem þeir sjálfir velja alla þátttakendur – þar sem fjallað er um sömu menn og málefni.
Hversu lengi á þetta að ganga svona? Stendur útvarpsstjóri fyrir þessu? Eða er hann bara inni á skrifstofu að ræskja sig og hefur falið dagskrárstjóra önnur störf sín? Hver ber ábyrgð á framgöngu starfsmanna ríkisútvarpsins undanfarna mánuði?
U ndanfarna daga hafa komið fram ásakanir þess efnis að bankarnir hafi „fellt krónuna“ með því að „taka stöðu gegn henni“. Viðskiptaráðherrann var auðvitað mættur til að tjá sig um málíð í sjónvarpsfréttum í gær þótt hann hefði augljóslega ekki allar upplýsingar um málið.
Ef það er rétt að bankarnir hafi sankað að sér gjaldeyri á síðustu árum mætti kannski helst segja að fleiri hefðu átt að taka sér þá til fyrirmyndar. En því miður létu alltof mörg fyrirtæki og heimili freistast af vaxtastefnu stærstu seðlabanka heimsins og tóku „ódýr“ erlend lán í stórum stíl án þess að hafa eignir eða tekjur í erlendri mynt til mótvægis. Hinn mikli vaxtamunur við íslensku krónuna ýtti undir þetta. Vítahringur vaxtamunar og hágengis krónunnar varð til. Það sem hefði getað rofið hann og stöðvað skuldasöfnunina var lækkun á gengi krónunnar með stórfelldri sölu hennar fyrir erlendan gjaldeyri.
Bara ef bankarnir hefðu fellt krónuna fyrr…