H vers vegna fá skilanefndir gömlu bankanna ekki Hörð Torfason til að koma í peningageymslurnar hjá sér og telja? Þar er greinilega maður sem kann að telja svo gagn sé að. Þegar hann væri búinn að telja peningana nokkrum sinnum, og fréttastofa Ríkisútvarpsins búin að staðfesta tölur hans, þá væri skilanefndum bankanna ekkert að vanbúnaði að borga upp allar skuldir bankanna. Afganginn mætti nota til að kaupa ævisögu Harðar, Tabú.
Og fyrst minnst er á ævisögu Harðar. Undanfarnar vikur hefur Hörður Torfason boðað reiðan múg til fundar og haldið þar slagorðaræður. En hvernig er það, er það rangt munað, að einu sinni hafi verið sú tíð að Hörður Torfason hafi ekki talið almenningsálitið, eins og það getur birst í túlkun öskrandi manna á götuhornum, vera til fyrirmyndar? Að einhvern tíma hafi Herði Torfasyni verið ljóst, að æstur múgur með fyrirframgefnar skoðanir, sem hefur valið sér örfáa menn sem skotmark, hafi ekki alltaf rétt fyrir sér?
Og að nokkrum árum síðar séu menn ekki endilega of stoltir af að hafa tilheyrt slíkum hópi? Eða getur verið að Hörður Torfason hafi bara alveg gleymt því, að stundarskoðanir ákafra manna gegn fáum einstaklingum, séu ekki alltaf betri við það að fleiri komi saman?
Þessar spurningar sækja meira á, eftir því sem Hörður Torfason heldur fleiri ræður á götuhornum, í nafni siðferðisvitundar fjöldans.