U m árabil hafa staðið harðar deilur vegna lóðarinnar Miðskóga 8 á Álftanesi. Eigendur lóðarinnar vilja byggja á henni hús enda er um byggingarlóð að ræða samkvæmt deiliskipulagi. Bæjaryfirvöld hafa hins vegar meinað eigendunum að nýta lóð sína með þessum hætti. Eigendur lóðarinnar saka meirihluta bæjarstjórnar um valdníðslu og spillingu í málinu og telja ástæðuna vera þá að húsbygging á lóðinni gæti dregið úr útsýni frá næstu lóð, Miðskógum 6, en þar er einbýlishús Kristjáns Sveinbjörnssonar. Kristján er kjörinn bæjarfulltrúi Álftaneslistans og var kosinn forseti bæjarstjórnar eftir að listinn fékk hreinan meirihluta í bæjarstjórn árið 2006.
„Fráfarandi forseti bæjarstjórnar og félagar hans á Álftaneslistanum neita enn að gefa upp hvort hann hafi staðið að umræddum meiðyrðum, Kristján neitar að svara spurningunni en bæjarstjórinn segir einungis að forsetinn tengist skrifunum hugsanlega. Í sömu frétt er bæjarstjórinn spurður hvort afsögn forseta bæjarstjórnar sé nægjanleg til að forða Á-listanum frá skaða af uppákomunni eins og það sé aðalatriði. Ekkert er hins vegar fjallað um þann fjárhagslega skaða sem lóðareigendur og íbúar sveitafélagsins hafa orðið fyrir vegna langvarandi málareksturs en ljóst er að sá skaði er mikill.“ |
Í nóvember birtist nafnlaus pistill á umræðuvef Álftanesbæjar þar sem fram komu grófar ásakanir á hendur eins eiganda lóðarinnar Miðskóga 8. Pistillinn hefur verið fjarlægður af vef bæjarins en að sögn eigandans var þar að finna rætin ósannindi og rógburð um persónu hennar; meðal annars að hún væri skattsvikari og glæpamaður sem hefði setið í fangelsi. Eftir að eigandinn hafði kært umrædd meiðyrði hófst lögreglurannsókn og leiddi hún í ljós að ummælin höfðu verið skrifuð inn á opna tölvu á Grand Hótel í Reykjavík. Myndir úr eftirlitskerfi sýndu karlmann ganga inn í tölvuherbergi hótelsins rétt áður en fyrrgreindar færslur voru settar inn. Þegar myndirnar voru bornar undir eigendur Miðskóga 8 töldu þeir ljóst að maðurinn væri Kristján Sveinbjörnsson og var hann þá kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu. Nokkrum dögum síðar sagði Kristján af sér embætti forseta bæjarstjórnar Álftaness og dró sig í hlé sem bæjarfulltrúi af „persónulegum ástæðum.“
Fréttablaðið fjallaði um málið 8. janúar síðastliðinn og þar neitar Kristján að svara því hvort hann skrifaði ummælin né heldur hvort hann hafi verið á hótelinu þegar skeytið var sent og vísar á lögmann sinn.
Hér er óneitanlega um sérkennilegt mál að ræða og furðulegt að fleiri fréttastofur en Fréttablaðið sjái ekki ástæðu til að fjalla um það. Fyrir skemmstu hlaut það til dæmis mikla athygli fjölmiðla þegar Bjarni Harðarson ætlaði úr launsátri að senda fjölmiðlum skrif tveggja nafngreindra manna sem fólu í sér gagnrýni en þó engin meiðyrði um störf annars kjörins fulltrúa, Valgerðar Sverrisdóttur.
Einsdæmi hlyti að vera að kjörinn forystumaður í sveitarfélagi færi gegn aðila sem leitar eftir þjónustu þess með þessum hætti og vægi að honum með slíkum meiðyrðum á vef sveitarfélagsins. Þar sem skrifin voru birt á vefsíðu sveitarfélagsins getur það að sjálfsögðu ekki firrt sig ábyrgð á þeim, ekki síst ef það sannast að forseti bæjarstjórnar sé höfundurinn.
Þær tvær fréttir sem Fréttablaðið hefur birt um málið hafa verið upplýsandi en þó er ljóst að því er hvergi nærri lokið og veigamikil atriði í atburðarásinni hafa ekki verið upplýst til fullnustu. Fráfarandi forseti bæjarstjórnar og félagar hans á Álftaneslistanum neita enn að gefa upp hvort hann hafi staðið að umræddum meiðyrðum, Kristján neitar að svara spurningunni en bæjarstjórinn segir einungis að forsetinn tengist skrifunum hugsanlega. Í sömu frétt er bæjarstjórinn spurður hvort afsögn forseta bæjarstjórnar sé nægjanleg til að forða Á-listanum frá skaða af uppákomunni eins og það sé aðalatriði. Ekkert er hins vegar fjallað um þann fjárhagslega skaða sem lóðareigendur og íbúar sveitafélagsins hafa orðið fyrir vegna langvarandi málareksturs en ljóst er að sá skaði er mikill.
Lóðarhafinn fullyrðir á vefsíðu sinni að kostnaður útsvarsgreiðenda á Álftanesi vegna málsins nemi tugum milljóna króna. Líklegt er að vinnubrögð meirihlutans í þessu máli hafi skaðað ímynd bæjarins og geti fælt framtíðaríbúa frá því að kaupa lóðir í sveitarfélaginu. Lóðareigendur telja að meirihluti bæjarstjórnar ætli að brjóta gegn rétti þeirra með því að breyta notkun lóðarinnar og gera þeim þannig óheimilt að byggja á henni. Orð Sigurðar Magnússonar bæjarstjórans verða verða ekki skilin öðru vísi en svo að stefna hans í málinu standi óhögguð þrátt fyrir afsögn forsetans.
Málið hlýtur að vekja upp spurningar um hvernig almennt hefur verið staðið að skipulagsmálum á Álftanesi hjá núverandi meirihluta og hver staða einstaklinga sé þegar þeir þurfa að leita til bæjarfélagsins. Hægt væri að spyrja fleiri spurninga um stjórn sveitarfélagsins ef út í það væri farið. Í desember síðastliðnum gerðu bæjarfulltrúar sjálfstæðismanna til dæmis athugasemdir við meint undarleg vinnubrögð hjá Álftanesbæ vegna reikningsviðskipta tengdum þjónustusamningi bæjarfélagsins við rafverktaka sem er alnafni fráfarandi forseta bæjarstjórnar.
Dettur einhverjum í hug að halda því fram að fjölmiðlar hefðu verið jafn áhugalausir um þessi furðumál ef um aðra flokka hefði verið að ræða en Samfylkinguna og vinstri græna en Álftaneshreyfingin er skilgetið afkvæmi þeirra?