Í Morgunblaðinu í fyrradag svöruðu Ársæll Valfells og Heiðar Már Guðjónsson grein hagfræðinganna 32 um einhliða upptöku gjaldmiðils í stað krónunnar. Meðal þess sem hagfræðingarnir héldu fram var að seðlabankar væru láveitendur til þrautarvara og til þess að Seðlabanki Íslands gæti gegnt því hlutverki þyrfti hann að geta sett prentvélarnar í gang og pundað út seðlum. Um þetta atriði segja Ársæll og Heiðar:
Því er haldið fram að Seðlabanki Íslands sé lánveitandi til þrautavara. Hver getur nefnt dæmi um slíka fyrirgreiðslu bankans, sem eingöngu sinnti einföldustu lausafjáraðstoð, en brást algerlega sem lánveitandi til þrautavara? Hvernig er hægt að halda því fram að Seðlabanki Evrópu sé lánveitandi til þrautavara? Benelux-bankinn Fortis, einn stærsti banki Evrópu, leitaði að þrautavaralánum í september og Seðlabanki Evrópu aðhafðist ekkert. Seðlabankar Belgíu, Hollands og Lúxemborgar gátu heldur ekkert að gert, enda voru þeir búnir að framselja peningaprentunarvald sitt til Seðlabanka Evrópu. Það dæmdist því á ríki hvers lands að grípa inn í með ríkisstyrki. Það sama á við í Bandaríkjunum þegar vandinn var orðinn það mikill að þingið samþykkti í haust ríkisaðstoð til bankanna þar í landi, enda gat Seðlabankinn ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Það gerðist einnig í Bretlandi. Það fer ekki fram hjá þeim sem með fylgjast að seðlabankar eru ekki lánveitendur til þrautavara í alþjóðavæddum heimi, heldur ríkisstjórnir. Þegar allt kemur til alls er það ríkið sem stendur á bakvið seðlabankana, eins og alltaf hefur verið. Einhliða upptaka er því ekkert frábrugðin aðild að myntbandalagi þegar horft er til lánveitanda til þrautavara.
Því hefur einnig verið haldið fram að gjaldeyriskreppan stafi fyrst og fremst af fjármagnsflótta frá landinu vegna vantrausts á íslenskt fjármálakerfi og efnahagsmál – ekki aðeins vantrausts á þjóðarmyntina sem slíka. Líkur á fjármagnsflótta frá landinu minnka verulega með því að taka upp trausta mynt og auðveldara er að endurreisa traust á fjármálastofnanir og efnahag. Erfitt getur reynst að afnema gjaldeyrishöft þegar krónan er enn við lýði. Því líklegt er að við afnám haftanna yrði verulegum hluta íslensks sparnaðar breytt í erlenda mynt og geymdur í íslenskum eða erlendum fjármálastofnunum. |
Seðlabanki Íslands hefur um áratuga skeið verið grátbrosleg stofnun. Viðskiptavinir bankans hafa aldrei getað treyst því að gjaldmiðill bankans falli ekki í verði, hvort sem er gagnvart öðrum gjaldmiðlum eða neysluvörum. Engu að síður hefur umræðan um að leggja hann niður og leyfa mönnum að velja um annan gjaldmiðil ávallt verið bundin við lítinn hóp frjálshyggjumanna. Aðrir hafa ekki haft áhuga á málinu.
En Seðlabanki Íslands er ekki einn á báti. Eins og Ársæll og Heiðar rekja eru seðlabankar vítt og breitt um hinn vestræna heim í standandi vandræðum um þessar mundir. Stærstu seðlabankar heimsins hafa einfaldlega ekki staðið undir nafni sem lánveitendur til þrautarvara. Og hvað sem líður öllu tali um sjálfstæði seðlabanka þá hafa ríkisstjórnir tekið af þeim ráðin. Í gær þjóðnýtti þýska ríkið til að mynda Commerzbank að hluta og lagði honum til 1700 milljarða króna úr vösum þýskra skattgreiðenda.
Það er nefnilega ekki bundið við Ísland að fjármálastofnanir hrynji í gegnum þrautarvarahengirúm seðlabanka. Seðlabönkum hér sem annars staðar hefur mistekist að stuðla að fjármálalegum stöðugleika.