Föstudagur 9. janúar 2009

9. tbl. 13. árg.

Á miðvikudaginn var sannkölluð furðufrétt á baksíðu Morgunblaðsins. Þar kom fram að blaðið hefði heimild fyrir því að í viðskipta- og félagsmálaráðuneytunum væri unnið að því að breyta húsnæðislánum sem tekin voru í erlendri mynt í lán í íslenskum krónum. Það er út af fyrir sig furðulegt að ríkið sé að skipta sér af því í hvaða mynt lán fólks eru. Auk þess vissi enginn að ríkið væri aflögufært um erlendan gjaldeyri til að greiða upp erlend lán í stórum stíl fyrir fólk. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins á hins vegar ekki að miða við gengi krónunnar í dag við þessa yfirfærslu. Viðmiðunargengið verður nálægt gengi krónunnar á þeim tíma þegar myntkörfulánin voru tekin. Unnið er að þessari lausn í félagsmálaráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur og viðskiptaráðuneyti Björgvins G. Sigurðssonar. Gangi þetta eftir mun greiðslubyrði margra heimila léttast. Lánin lækka í krónum talið en íslenskir vextir eru hærri en víða erlendis. Ekki liggur fyrir hver kostnaður ríkissjóðs verður við þessa aðgerð.

Þetta þýðir að fólk sem meðal annars hefur tekið lán í erlendri mynt út á húsin sín til að kaupa verðbréf, flatskjái og bíla mun nú fá stóran hluta lánsins felldan niður. Eitthvað af þessu fólki er með tekjur í erlendri mynt og á jafnvel aðrar eignir í erlendri mynt. Auðvitað eru dæmin líka mörg um að fólk hafi einfaldlega ákveðið að taka erlend lán til að kaupa íbúð af þeirri einu ástæðu að vextirnir voru lægri. En það var hættuspil sem margir vöruðu við. Er réttlætanlegt að afleiðingunum verði velt yfir á aðra?  

Það er líka áhugavert hvaða ráðherrar það eru sem eru að vinna að þessu máli ef satt reynist. Báðir eru úr Samfylkingunni sem vill ganga í ESB og taka upp evru. Þeir keppast hins vegar við að koma fólki úr evrum og öðrum erlendum gjaldmiðlum yfir í íslenskar krónur. Og ætla að nota til þess fúlgur fjár úr vösum skattgreiðenda. Það er frétt að krónan eigi sér svo ötula stuðningsmenn.

Í haust upplýstu fjölmiðlar að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, þar af einhverjir ráðherrar, hefðu fjármagnað íbúðakaup sín á undanförnum árum í erlendri mynt. Vefþjóðviljinn treystir því að þar á meðal séu ekki þeir ráðherrar eða þingmenn sem beiti sér fyrir krónvæðingu húsnæðislánanna. Það væri einhliða upptaka krónunnar í óþökk og á kostnað skattgreiðenda.