Fimmtudagur 8. janúar 2009

8. tbl. 13. árg.

Í

Grein hagfræðinga í Morgunblaðinu í gær. Árið 2004 tjáði einn þeirra sig um ógnir hjarðhegðunar: „Það er meira og minna öll hjörðin sem hleypur í sömu átt. Ég þori ekki að fullyrða hvort einhver rekur hana áfram öðrum fremur. Það þarf ekki að vera því svona andrúmsloft, hjarðhegðun, getur myndast á mörkuðum.“

gær birtu áhugamenn um stjórn peningamála niðurstöður skoðanakönnunar sem Capacent gerði um afstöðu manna til einhliða upptöku annars gjaldmiðils hér á landi. Nokkuð erfiðlega hefur gengið að fá þennan möguleika ræddan af alvöru á undanförnum áratugum. Umræðan hefur að mestu verið bundin við fremur þröngan hóp frjálshyggjumanna sem voru búnir að fá nóg af þeirri skattheimtu sem felst í misnotkun á seðlaprentunarvaldi íslenska ríkisins og birtist í verðbólgu eða öllu heldur verðfalli seðlanna.

Hvorki ríkisvaldið, stjórnmálaflokkar né hagsmunasamtök hafa skoðað þennan kost af gaumgæfni á meðan endalaust flóð rannsókna og skýrslugerða um aðild Íslands að ESB hefur dunið á landsmönnum. Þetta ástand skýrist væntanlega af því að andstæðingar Evrópusambandsaðildar hafa margir hverjir viljað hanga á krónunni því umræða um aðra kosti leiði menn á endanum inn í stórríkið í Brussel. Stuðningsmenn aðildar að ESB vilja hins vegar ekki ræða þennan möguleika því þar með opnast hugsanlega leiðir til að leysa gjaldmiðilsmál Íslendinga án aðildar að draumaríki þeirra.

Í stuttu mál sagt leiðir þessi könnun í ljós að það er ekki andstaða meðal almennings sem komið hefur í veg fyrir umræðu um þennan kost. 56,4% sögðust hlynntir einhliða upptöku alþjóðlegrar myntar, 21,6% andvígir en 22% sögðu hvorki né. 68,9% þeirra sem vilja taka upp aðra mynt í stað krónu sögðust vilja að það yrði gert á næstu 6 mánuðum. Sé þeim bætt við sem vilja breytinguna á næstu 7-12 mánuðum kemur í ljós að 85,3% þeirra sem vilja gjaldmiðilsbreytingu vilja að hún verði innan 12 mánaða.

Í gær birtist einnig grein 32 hagfræðinga í Morgunblaðinu þar sem þeir fundu því flest til foráttu að Ísland taki upp annað gjaldmiðil. Þeir segja meðal annars um einhliða upptöku: „Með því móti stæðu landsmenn einnig uppi án seðlaprentunarvalds og án nokkurra möguleika til þess að styðja við íslenskt fjármálakerfi með tryggum aðgangi að lausafé nema því aðeins að ríkisvaldið útvegaði evrur með einhverju móti, s.s. með erlendri lántöku. Án alþjóðlegs stuðnings við upptökuna yrði slíkur aðgangur aldrei að fullu tryggður. Meðal mikilvægustu hlutverka seðlabanka í öllum löndum heimsins er að veita fjármálakerfinu bakstuðning sem lánveitandi til þrautavara. Þetta hlutverk má alls ekki vanmeta. Fjármálakerfi án öflugs bakhjarls er ekki til þess fallið að skapa traust við núverandi aðstæður í heiminum.“

Er það ókostur að stjórnvöld eigi takmarkaða möguleika á að styðja við fjármálakerfið? Er ekki mikilvægasti lærdómur fjármálakreppunnar um allan hinn vestræna heim nú um stundir að það hvetur ekki til ábyrgrar hegðunar að fjármálafyrirtæki séu undir verndarvæng hins opinbera? Blasir það ekki við öllum, nema þessum 32 hagfræðingum, að jafnt stærstu sem smæstu seðlabönkum heims mistókst að skapa traust á fjármálakerfinu? Víðast hvar eru skattgreiðendur mættir með fúlgur fjár til að bjarga fjármálafyrirtækjum og ríkistjórnir keppast við að lýsa yfir ábyrgð á öllum innistæðum. Evrópusambandið gekk jafnvel svo langt að krefjast þess að íslenskir skattgreiðendur tækju alla ábyrgð á viðskiptum íslenskra einkabanka við innistæðueigendur, að öðrum kosti fengi íslenska ríkið ekki lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

E ins og greint hefur verið frá í fréttum deila eigendur Tals nú hart sín á milli, í framhaldi af brottvikningu forstjóra og samningum félagsins við ýmis símafyriræki. Fullyrðir meirihluti stjórnar meðal annars að hinn brottvikni forstjóri, Hermann Jónasson, hafi hótað að kæra fyrirtækið til samkeppnisstofnunar. Ekki dettur Vefþjóðviljanum í hug að setja fram skoðun á þessum deilum. Nema að því leyti að blaðið hefði fremur kosið að forstjórinn kærði fyrirtækið til fjármálaeftirlitsins. Ekki vegna málavaxtanna, heldur vegna þess að þá hefði Jónas Jónsson loks fengið kæru frá Hermanni Jónassyni.