Bjarni segir í grein sinni að skortur hafi verið á skilningi stjórnmálamanna á starfsemi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og hvers konar ramma þau þurfi að búa við. Vel má vera að skilningurinn hafi verið takmarkaður en hitt er ljóst að lagaramminn er sambærilegur við það sem gerist á alþjóðamörkuðum. Hvað eftirlitið varðar þá er ljóst að þar hefur eitthvað farið úrskeiðis þrátt fyrir það að Fjármálaeftirlitið hafi verið eflt með hverju árinu sem leið og starfmönnum fjölgað. Það var ekki fyrir rausnarskap stjórnvalda sem það gerðist heldur markaðarins þar sem eftirlitsskyldir aðilar greiða reksturinn. |
– Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi viðskiptaráðherra um grein Bjarna Ármannssonar „Horfst í augu við bankahrunið“. |
Þ að er rétt sem Valgerður Sverrisdóttir bendir á. Framlög til fjármálaeftirlits hafa verið aukin undanfarin ár eins og Vefþjóðviljinn rakti raunar fyrr í haust. Framlögin voru aukin um 100% milli áranna 2006 og 2007 og svo aftur um 50% vegna ársins 2008. Það var gert með aukinni gjaldtöku af fjármálafyrirtækjunum sjálfum. Á síðasta ári, árið sem bankarnir lögðu upp laupana eða voru knésettir af breskum krötum, kostaði fjármálaeftirlitið nær 4 milljónir króna hvern virkan dag ársins. Og það er líka rétt sem Valgerður bendir á að reglurnar hér um fjármálastarfsemi voru þær sömu og í löndunum í kringum okkur.
Trúir því einhver að menn hefðu komið í veg fyrir hrun bankanna með því að sexfalda framlög til fjármálaeftirlitsins í stað þess að þrefalda þau frá 2006 til 2008? Er líklegt að eitthvað annað hefði komið út úr álagsprófunum sem fjármálaeftirlitið gerði á bönkunum ef starfsmenn þess hefðu verið enn fleiri? Nær væri að halda að menn hefðu fyrr losað sig við óraunhæfar væntingar og náð jarðtengingu ef fjármálaeftirlitið hefði hreinlega ekki verið til. Þá hefðu ekki verið gefin út álagspróf með glans og fólki talin trú um að allt væri í stakasta lagi. Hvenær ætli mönnum lærist að opinbert eftirlit af þessu tagi getur veitt falskt öryggi? Sér ekki hið opinbera um að allt sé í lagi? Þarf ég nokkuð að spá í það sem er að gerast í kringum mig?
Það er hins vegar mikið kallað eftir auknu eftirliti um þessar mundir. En menn voru bara búnir að fá aukið eftirlit, margfalt það sem áður var. Undanfarið eitt og hálft ár var meira að segja sérstakur viðskiptaráðherra í ríkisstjórninni sem hafði það eina hlutverk af fylgjast með bönkunum.