S veitarfélögin standa mörg hver illa nú um stundir, enda hafa þau verið rekin með taumlítilli eyðslu undanfarin ár, og því upp á lítið að hlaupa þegar kreppir að. Flest þeirra hafa brugðið á sama ráðið, að sækja meiri peninga til útsvarsgreiðenda, sem þar með hafa minna eftir í eigin vasa, auk þess að halda áfram að safna skuldum. Alþingi ákvað á dögunum að hækka leyfilegt hámarksútsvar og ákváðu 58 sveitarfélög að nýta sér það, í stað þess að skera frekar niður eyðsluna sem hækkuninni næmi.
Eitt sveitarfélag er þó skylt að nefna, en Fljótsdalshreppur ákvað að lækka útsvarshlutfallið úr 13,03% í 12% og er Vefþjóðviljanum vitaskuld ánægja að greina frá þessu, sveitarstjórninni til sóma. Þá er ekki síður rétt að nefna hér enn sveitarfélögin Skorradalshrepp, Helgafellssveit og Ásahrepp, sem innheimta lágmarksútsvar, 11,24% af sínu fólki. Hafa þau undanfarin ár varist harðlega sameiningartilraunum þeirra stærri og skattaglaðari og megi sú vörn lengi vera uppi.
Enn má nefna eitt sveitarfélag en ekki því til hróss. Bæjarstjórn Vestmannaeyja ákvað á dögunum tvennt. Að hækka útsvarið í hið nýja hámark og að byggja knattspyrnuhöll fyrir 100 þúsund krónur á hvern útsvarsgreiðanda. Eitt er nú að innheimta útsvar til að standa undir lögbundnum verkefnum, við því er kannski fátt að segja. En þegar menn framkvæma langt umfram lögbundin verkefni, þá eiga þeir að láta sér lægsta mögulega útsvar nægja. Hvernig dettur bæjarstjórninni í Vestmannaeyjum í hug að íbúarnir hafi svo mikið óþarfafé undir höndum, að það megi taka það af þeim með hámarksútsvari og byggja fyrir það knattspyrnuhöll?
R íkissjónvarpið endursýndi áramótaskaup sitt um helgina og var það vel til fundið enda skaupið skemmtilegra en oft áður og almennt vel leikið. Að auki var það auðvitað sérstök skemmtun að fylgjast með því hvernig handritshöfundum tókst að sjást yfir þá staðreynd að Samfylkingin hefur setið í ríkisstjórn undanfarin misseri. Ráðherrar Samfylkingarinnar misstu nær alfarið af skaupinu og fengu ekkert bitastætt hlutverk. Geir Haarde var meira að segja Björgvinjarlaus á blaðamannafundinum sínum í Iðnó og var það vel af sér vikið. Útrásarforsetinn komst ekki að og fyrrverandi vinátta Samfylkingarinnar við auðmenn landsins ekki heldur.
En það náðist að taka Ólaf F. Magnússon aðeins fyrir. Um að gera að velgja þessum valdamönnum undir uggum.