Ó líkt því sem margir hér á landi virðast halda er fjármálakreppan rædd víða um lönd án þess að Garðarshólma sé getið. Þrátt fyrir allt þykir flestum meira varið í að ræða um slaka peningamálastefnu Seðlabanka Bandaríkjanna, undirmálslánin, Bear Stearns, Lehman Brothers og Madoff en ástandið á Íslandi. Dæmi um það má sjá og heyra í áramótauppgjöri ritstjórnar The Wall Street Journal. Þar er ekki minnst á Ísland þótt fjármálakrísan sé aðal umfjöllunarefnið. Það er því sennilega óþörf sjálfhverfa að gera ráð fyrir því að mannkynið sé upptekið af því að útmála alla Íslendinga sem hálfvita og fjárglæframenn. Það er jafn mikil minnimáttarkennd og þegar því var haldið fram að umheimurinn liti á Íslendinga sem einstæða kraftaverkamenn í viðskiptum, líkt og viðskiptaráðherrann kvað í september sem leið: „Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu.“
http://s.wsj.net/media/swf/main.swf
En það er líka áhugavert að heyra hvað viðmælendur bandaríska blaðsins hafa að segja um ástæður fjármálakreppunnar. Hér heima eru Eglar og Speglar að sjálfsögðu alveg uppteknir af því að hugsanlega hafi einkaþotur verið ofnýttar, árshátíðir úr hófi eða kaupréttarsamningar siðlausir. Allir bíða þeir eftir að glæpurinn sem felldi bankana upplýsist og ef hann upplýsist ekki sé það sérstök sönnum fyrir því hvílíkt glæpasamfélag það er sem við búum í.
Þeir sem lögðu orð í belg í áramótauppgjöri The Wall Street Journal reyndu hins vegar að skoða myndina í heild sinni, hvaða gallar voru í kerfinu sem hrundi en síður hvaða persónur nýttu sér þá. Meðal þess sem þeir bentu á var að slök vaxtastefna bandaríska seðlabankans hefði getið af sér glórulausar fjárfestingar og þrýstingur stjórnmálamanna á að allir fengju að kaupa sér húsnæði væri rót undirmálslánanna svonefndu.
Mary Anastasia O’Grady segir að þegar litið verði um öxl muni menn horfa til Seðlabanka Bandaríkjanna sem hélt vöxtum of lágum of lengi. Hún bendir einnig á að bandaríska þingið hafi ekki aðeins viljað tryggja mönnum tækifæri til lífs, frelsis og leitar að lífshamingju heldur einnig rétt til eigin húsnæðis á góðum lánakjörum. Að auki hafi ríkið falið nokkrum lánsmatsfyrirtækjum alltof mikil völd með þeim afleiðingum að allt sem frá þeim kom var álitið gott og blessað.
Þetta er svipuð lýsing á kerfishruninu og finna mátti í grein Sigríðar Á. Andersen í Morgunblaðinu 10. desember:
Seðlabankar ríkisins stýra peningamagni í umferð, vöxtum, bindiskyldu og í flestum löndum gert er ráð fyrir að þeir veiti bönkum lán þegar þeir lenda í lausafjárþurrð. Seðlabankarnir eru bankar bankanna og eiga að gæta að stöðugleika þeirra. Lagabálkar um fjármálastarfsemi eru miklir að vöxtum og stórar ríkisstofnanir hafa eftirlit með að farið sé að þessum lögum og öðrum reglum. Fáar atvinnugreinar eru í svo strangri gæslu ríkisins. Flóknar reglur og kostnaðarsamt eftirlit af þessu tagi auka miðstýringu og samþjöppun og draga úr samkeppni því litlar einingar eiga erfitt með að standa undir fasta kostnaðinum af slíku. Þessi þvingaða samþjöppun í stórar einingar getur leitt til annarrar áhættudreifingar en ella væri í atvinnugreininni. Annað hvort fellur allt eða ekkert. Að auki hefur ríkisvaldið ýmis önnur afskipti af þessum markaði líkt og með niðurgreiðslu á lánsfé til húsnæðiskaupa. Hér á landi og víðar starfa jafnvel opinberir húsnæðislánasjóðir sem hafa stundað æðisgengna keppni við bankana. Þessi sjóðir hafa verið undir pólitískum þrýstingi um að lána fleirum og með hærra veðsetningarhlutfalli en varkárar fjármálastofnanir ættu að gera. Uppskeran af þessum ríkisafskiptum af fasteignamarkaði kallast nú undirmálslán. Það má því hiklaust segja að fjármálastarfsemi hafi verið dæmi um blandaða efnahagsstarfsemi, blöndu einka- og ríkisrekstrar undir miklu eftirliti og afskiptum hins opinbera. Grunnurinn sem þessi blandaða starfsemi hvílir á er útgáfa ríkisins á gjaldmiðli og stjórn þess á peningamálum.
Margt bendir til að lausatök í stjórn peningamála hafi einmitt komið bólunni, sem nú er að springa, af stað. Seðlabankar heimsins hafi aukið peningamagn í umferð án þess að samsvarandi sparnaður hafi átt sér stað. Seðlabankarnir hafa jafnframt lækkað stýrivexti og þannig komið af stað óraunhæfum væntingum. Þetta er ekki nýtt af nálinni. Austurrísku hagfræðingarnir Ludwig von Mises og Friedrich von Hayek vöruðu ætíð við þeirri freistingu sem felst í seðlaprentunarvaldi ríkisins og því ójafnvægi sem óhófleg beiting þess getur af sér. Útlán og peningar sem byggjast ekki á raunverulegum sparnaði eru skammgóður vermir. Útlán fjármálastofnana sem ekki er mætt með samsvarandi sparifé ýta undir óhóflega bjartsýni athafnamanna. Bygginga- og fasteignamarkaðurinn á undanförnum árum er gott dæmi um þetta. Með öðrum orðum má segja að athafnamennirnir hegði sé eins og þeir séu að mæta auknum sparnaði almennings sem síðan reynist ekki vera til staðar. Menn þekkja vel úr landbúnaði að niðurgreiðslur ríkisins valda offramleiðslu. Lánsfé á niðursettum vöxtum veldur almennri offjárfestingu. Þessi afvegaleiðing í hagkerfinu hefur óhjákvæmilegar afleiðingar. Dæmið gengur ekki upp. Fyrr en varir sígur á ógæfuhliðina, samdráttur tekur við og sársaukafull en nauðsynleg leiðrétting á sér stað. Í leiðréttingunni felst undantekningarlaust endurskoðun á öllum fjárfestingum. Við stöndum nú á þessum tímamótum. Munum við bera gæfu til að leyfa þessari endurskipulagningu atvinnulífsins að eiga sér stað á rekstrarlegum forsendum? Það er ekki víst að svo sé. Hagfræðiprófessorarnir Jón Daníelsson og Gylfi Zoëga lögðu til (Mbl. 27. okt. 2008) sem fyrsta skref út úr vandanum að prentvélarnar í seðlabankanum verði settar á fullt, peningamagnið aukið og „ódýru lánsfé“ dreift um bæinn svo halda megi fyrirtækjum og heimilum gangandi. Þetta er þó einmitt upphaf vandans. Aukið framboð á ódýru fjármagni við núverandi aðstæður myndi koma í veg fyrir nauðsynlega endurskipulagningu atvinnulífsins og aðlögun að raunhæfum forsendum. Það gæti framlengt og dýpkað kreppuna. Það gerðist einmitt í Japan þar sem svo oft hefur verið reynt að koma atvinnulífinu í gang með þessum gömlu húsráðum Keynes lávarðar, ódýru fjármagni og auknum ríkisútgjöldum, að örvunin hætti að hafa áhrif, jafnvel til skamms tíma. Lækning á meininu getur ekki verið stærri skammtur af eitrinu sem olli því. Við getum því miður ekki „eytt“ okkur út úr skuldunum. Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar og formaður viðskiptanefndar Alþingis boðaði skattahækkanir (RÚV 1. nóv. 2008) því að öðrum kosti þurfi að spara í ríkisrekstrinum. Við þessar aðstæður er þó fátt mikilvægara en að draga úr útgjöldum hins opinbera og lækka skatta svo skuldug heimili og fyrirtæki geti greitt skuldir sínar. Skattahækkanir myndu draga úr möguleikum heimila og fyrirtækja til að greiða skuldir sínar sem er þó það sem gæti helst bætt stöðu þeirra. Alþingi setti í síðustu viku lög sem ætlað er takmarka fjármagnsflutninga til og frá landinu. Lögin eru í raun yfirlýsing stjórnvalda um að gjaldmiðill ríkisins sé ekki á vetur setjandi en yfirlýstur tilgangur laganna er þó að styðja við þennan sama gjaldmiðil. Því til viðbótar má segja að til að endurskipulagning atvinnulífsins gangi hratt og örugglega fyrir sig sé lykilatriði að afnema höft og auka sveigjanleika á fjármála- og vinnumarkaði. Það er alltaf slæmt að hefta hreyfingar fjármagns milli landa en sérstaklega þegar endurfjármögnun margra fyrirtækja er lífsnauðsynleg. Ekkert ofangreindra þriggja ráða heggur því að rótum vandans heldur frestar honum í besta falli um skamma hríð. Það þarf að sigrast á vandanum, en ekki fresta honum, svo hægt sé að snúa þessari nauðvörn í sókn. Stöðva þarf áralanga og linnulausa aukningu útgjalda ríkis og sveitarfélaga og skapa þannig raunverulegri verðmætasköpun svigrúm. Lækka þarf skatta myndarlega svo heimili og fyrirtæki geti greitt skuldir sínar og hafið uppbyggingu að nýju. Lækka þarf framfærslukostnað heimila og fyrirtækja með auknu frelsi til innflutnings matvæla og lækkun og einföldun á vörugjöldum og tollum. Afnema þarf höft eins og nýju gjaldeyrislögin. Auka þarf rými einstaklinga til atvinnurekstrar með því að ríkið dragi sig í hlé á sem flestum sviðum og losi sig úr starfsemi eins og verslun og fjölmiðlun, að ekki sé minnst á fjármálastarfsemina. Síðast en ekki síst þarf að leysa gjaldmiðilskreppuna. Sú kreppa er ekki ný af nálinni heldur hefur íslenska krónan reynst óáreiðanlegur gjaldmiðill áratugum saman. Það er sameiginleg vanræksla okkar allra að hafa ekki tekið á þessum veikleika í efnahagslífi okkar fyrir löngu, raunar löngu fyrir tíð evrunnar. |